Virðist svo einfalt
Gleymi stundum hvað músík skiptir mig miklu máli og í dag datt ég inn í youtube og fann eitthvað sem snart mig djúpt. Hér er eitthvað:
Fyrst Katie Melua - Allir vita hver hún er, en ekki þá og þarna! Gaman að þessum kröfuhörðu frökkum sem hlusta á nýja músiktalentið.
Svo er það Eva Cassidy sem ég vissi ekkert um fyrr en núna áðan. Hún er reyndar ekki lifandi lengur - varð 33ja ára og dó 1996. Hér syngur hún, og svo málaði hún einnig (1,2,3), teiknaði og bjó til skúlptúra. Svo kemst ég að því að bróðir hennar er Dan Cassidy fiðluleikari sem búsettur er hér á landi.
Þessar konur eru óhræddar að setja hlutina fram svo ótrúlega fínlega, og tekst það án þess að klúðra eða að slái út í væmni. Eitthvað sem fáir leggja út í nú til dags. Einlæg leit gerir mann jafnframt svo berskjaldaðan. Fólki liggur eflaust jafnmikið á hjarta í dag og áður, en treystir sér ekki. Auðveldara að fela sig bak við einhvern grodda eða óskiljanlega hugmyndafræði. Eða bara gera ekki neitt og finnast fátt. Nei þetta er ekki rétt hjá mér. Það er fullt spennandi að gerast! Ég ætla að taka þessar stúlkur mér til fyrirmyndar - Legg allt í sölurnar og stefni berskjaldaður af stað í barnslegri einlægni að bjargbrúninni eins nálægt og ég hef hæfileika til. Bla bla bla
Afsakið leiðindin og biturðina. Ég hressist örugglega við næstu mynd!
Annars var þátturinn Á sumarvegi með besta móti í gær. Hlustið á þetta ef þið viljið heyra skelegga og stórskemmtilega innsýn á fjölmargt sem skiptir máli!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli