sunnudagur, 25. febrúar 2007

Spara blöðin...

Þessa mynd gerði ég 11. nóvember 2006 á tónleikum Egils Ólafssonar í tilefni útgáfu disksins Miskunn Dalfiska. (Ein af þessum myrkraverkum!) Var að ramma hana inn fyrir hann, en komst að því mér til mikils hryllings að aftaná sitthvorri síðunni eru þessar tvær myndir hér að neðan sem hafa mikla tilfinningalega þýðingu fyrir mig!

      

Hérmeð eru þær gerðar ódauðlegar í stafrænu himnaríki. Svona hefnist manni fyrir að spara pappír... þegar skissubókin kostar heilar ISK 200 í Tiger! Ansinn! Hvernig væri nú að fara að mála stórar myndir í olíu og hætta þessarri naumhyggju og dútli! Nei nei, bara að jóka :o)

mánudagur, 19. febrúar 2007

Motivated execution

      
Þó þessar tvær myndir nái engan veginn að vera líkar þeim manneskjum sem þær eru af, þannig að þær þekkist, þá ná þær samt stemmningu augnabliksins og þar með kannski meira af manneskjunni heldur en ef einungis hefði náðst svipur. Myndin af Gabríel var gerð á tveimur mínútum rétt áður en við fórum í göngutúr upp í sveit í gær. Hann hætti að geibbla munninn í nokkrar sekúndur og ég náði honum! Mynd af stoltum syni eftir stoltan pabba. Hin er Ólöf að vinna á Tárinu í morgun. Tókst ekki að klára hana, trefillinn var skrautlegur og hefði gert mikið, og einnig hefði ég viljað klára fótlegginn betur. Samt ánægður. Tvær myndir gerðar af réttri motívasjón - hrifningu!

laugardagur, 17. febrúar 2007

Einn og hálfur hringur


Hörður á mokka.
Hitti Bjarna Bernharð og Hörð Arinbjarnar á Mokka í dag. Hörður var nýkominn af spítala. Rétt að ná sér eftir alvarlega berkjarbólgu. Hann er allur að koma til. Svo var gala dinner í Perlunni fyrir briddsarana nú í kvöld. Fjórir réttir á einum og hálfum hring umhverfis Rvk. Sat með Tomasi Brenning sem er tæknilegur keppnisstjori Icelandair Open (Star wars) og Leilu konu hans sem er stórskemmtileg og eldklár stelpa, ásamt Björgvini og Sveini Rúnari spilurum og fínum piltum.
Er búinn að fá yampppodinn mp3 spilarann minn til að virka! Nú er bara að koma upp þróunartólum og þá get ég farið að hanna ponsann. Fannst tilvalið að nota þessa þróun hjá Jesper Hansen því hann er með sama örgjörvann og sama LCD skjáinn. Ekki auðvelt að stíga fyrstu skref í ARM7 hönnun alveg á eigin spítur! Segi frá hvernig þessu miðar áfram hjá mér í framtíðinni.
Hlakka svo til að fara í sveitina á morgun með mínum æðislega Gabríel syni og vini! Slappa af í faðmi dalsins og koma svo endurnærður í baráttuna aftur á sunnudagskvöld.

föstudagur, 16. febrúar 2007

Hendrix og blús við kertaljós

Og áfram held ég að teikna myndir í myrkri! ...að þessu sinni alveg dauðþreyttur. Hef undanfarna daga verið að stússast í tölvutæknimálum varðandi bridge hátíð (Icelandair Open), mikið stress en ansi gaman. Vildi samt ekki missa af Dóra og Bjössa í Domo nú í kvöld. Laumaðist því burt eftir að mótið var sett og kreisti fram síðustu einbeitinguna í þessa misheppnuðu mynd. Því miður- því Björn Thoroddsen er í raun svo létt að ná, með sín frábæru karaktereinkenni! En allt kom fyrir ekki. Svo vantar bæði Jón Góða og Dóra á myndina! Æ.

sunnudagur, 11. febrúar 2007

Grænar myndir

Þegar maður sér engan mun á græna litnum og þeim bláa (sem er reyndar bara eðlilegt í birtunni á ölstofunni), öllu heldur þegar myndirnar eru orðnar svo ljótar að enginn hefur ánægju af, þá er kominn tími til að tygja sig heim. Að öðru leiti alveg ágætis kvöld! Set þessar skissur hér til viðvörunar! (Kristrún (?), Jón Þór og Egill.)

                  

fimmtudagur, 8. febrúar 2007

Næring dagsins

Í allri þessarri umræðu um kynferðislega misnotkun, andlega kúgun og annað sem er svo gaman að velta sér upp úr, hjólaði ég upp á fjögur ungmenni í Austurstræti með skilti sem á stóð "HUG ME!" stórum litríkum stöfum. Stoppaði eins og í leiðslu og að mér vatt sér þessi unga kona. "Come and get it!" var kallað til mín, og við bara föðmuðumst. Hjólaði svo af stað með nýja von í brjósti, á meðan grár massinn leið framhjá, heltekinn af nýjustu fréttum af Breiðavík.

Sat frábæran fyrirlestur Stefáns Pálssonar í ReykjavíkurAkademíunni á vegum Hagþenkis um fræðirit og stöðu þeirra í gærkvöldi. Stefán var fyndinn og frjór og fór á kostum. Þetta símadútl var til á fyrirlestrinum... æfingar sem leiða vonandi einhverntímann til animation sem verður öll í slíkum fantasíuheimi.

Annars er framundan markviss vinnutörn næstu þrjú árin, þar sem ekki má slá slöku við. Þarf ekki að óttast meðan draumaveröldin er innan seilingar og jafnvel útbreiddur faðmur á næsta götuhorni...

þriðjudagur, 6. febrúar 2007

Skilyrðing bankanna

Er að skoða möguleika á evruláni til að losna við helstu skuldir, svo sem yfirdrátt og skattaskuld sem er hvortveggja á bullandi vöxtum. Held að það sé sniðugt að taka lán í erlendri mynt, óverðtryggt og losna þannig við að borga vaxtabætur sem bankarnir lifa á. Er maður þá kannski að grafa undan lífeyrissjóðakerfinu íslenska - að það hrynji bara til grunna ef vaxtabæturnar hverfa? Ekki að ég skilji þetta baun! En, finnst eitthvað undarlegt þegar maður hefur alla sína hunds og kattar tíð, legið með peningana meira eða minna í sama bankanum honum til ráðstöfunar, þá sé maður tilneyddur til að setja heimilið sitt að veði til að fá pínu ponsulítið lán. Svo þegar borið er saman óverðtryggt lán sem tekið er í erlendri mynt og svo lán í íslenskum krónum með verðtryggingu þá bara dettur andlitið af manni. Hvernig er hægt að blekkja þjóðina svona, ... eða eru allir að átta sig. Já það er líklega þetta sem evru umræðan snýst um!

Um þessar mundir er ég mikið að spá í framtíð fyrirtækisins míns. Hingað til hef ég ekkert verið að presentera það sérstaklega - menn hafa leitað til mín með verkefni, en nú er ég í stakk búinn til að bjóða lausnir að fyrra bragði, og er að spá í hvernig best er að stilla þessu upp - kynna það sem maður hefur fram að færa - bjóða heiminum inn.

Gengur vel í tækniþróun, (og því er engin spennandi mynd um þessar mundir - tæknikallinn er svo andlaus á þessu sviði). Tókst að búa til ansi góða magnararás fyrir lágspennu. Get núna lesið beint af vogarsellum og þrýstinemum td. nema með 50mV útslagi. Gott að þetta er komið - mikilvæg eining til að fullkomna vaktaralínuna.

Já, þessi mynd... vildi bara setja eitthvað, en stundum er það jafnvel verra! Því hún er algert rusl, handónýt myndbygging og hvorki fugl né fiskur. En set hana samt, því hún heitir Afurð geysimikillar ómeðvitaðrar skilyrðingar (á ensku Product of severe unconcious conditioning).

laugardagur, 3. febrúar 2007

Morgunverður fyrir 250 manns

Til að brjóta upp hættulega rútinu eða öllu heldur til að hrista aðeins upp í tilverunni þá sótti ég um vinnu í eldhúsi og var ráðinn. Ekki fulla vinnu - hef enganveginn efni á því. Verð til taks í neyðartilfellum þegar bráðvantar hjálparhönd. Fyrsti vinnudagur var í gær - mættur kl. 06:00 til að útbúa morgunmat fyrir 250 manns. Ég ásamt fjórum röskum konum, höfðum 2 tíma til stefnu. Tók skurn af eggjum í um klukkustund! Og ég sem hélt að continental breakfast yrði bara til af sjálfu sér! Í beinu framhaldi var svo útbúinn hádegismatur. Ruby vinkona og matselja er frábær kokkur. Stemmningin er mátulega stressandi en allt er vel skipulagt og bara mjög gaman. Svo kl. 13 var ég búinn, og satt að segja var ég búinn að vera restina af deginu. Svona þurfa konurnar í eldhúsinu að vinna alla vikuna, fyrir kr. 800 á tímann (fyrir skatta). Og ég er í þessu til að fá hressandi tilbreytingu! Þetta er nú meira niðrávið snobbið hjá mér! Hvað svo sem má kalla þetta, þá skila ég góðri vinnu og brýt ekki allt of mörg bollastell.

Verra var að ég hefði viljað fara í matarboð hjá Ollu og Emiliano um kvöldið, þar sem kvikmyndagerðarkonan Aliona van der Horst var líka boðið svo og fleiri vinum, og Emiliano ætlaði að elda lamb. Ég afboðaði komu mína og sofnaði útfrá kassanum um kvöldmatarleitið alveg útkeyrður.

Emiliano Monaco er búinn að stofna Reykjavik Documentary Workshop, og var fyrsta verkefni að sýna myndina Voices of Bam efir Alionu van der Horst á fimmtudagskvöldið var í Norræna Húsinu. Myndin fjallar um áhrif jarðskjálftans á fólkið í borginni BAM í Íran 2004. Myndefni og frásagnir fólks sem eftir lifðu segja átakanlegar sögur, sem raðað er saman á nærgætinn og alúðlegan hátt, án nokkurrar skrumskælingar. Þetta fannst mér nokkuð vel af sér vikið, þó svo að stundum hafi myndin verið einum of látlaus. Takk RDW og hlakka til að sjá meira!

Barði Einarsson er kominn aftur til Íslands. Þetta skilja bara vinir mínir eins og margt annað sem ég skrifa hér. Það er skrítið að eftir 17 ár, þá er eins og Barði hafi bara verið hér síðast í gær- hann hefur ekkert breyst! Mér finnst hinsvegar að hálf ævi mín hafi liðið hjá á þessum sama tíma.

Ennþá held ég áfram að njósna um fallegar konur. Í staðinn fyrir að teikna Ágústu Evu á Kaffitári, þá var önnur sem sneri vanganum að mér fyrir valinu. Brosti hinsvegar til Ágústu Evu, og fékk Silvíu Nætur viðbrögð í formi niðurlægjandi fliss! Já ég átti það svo sannarlega skilið :o)
Þó handbragðið sé ennþá ekki orðið eins laust og ég hefði óskað, þá er ég ánægður með fínulegu teikninguna.

fimmtudagur, 1. febrúar 2007

Deginum reddað

Já, erfiður dagur. Reyndi allt til að fá andlega næringu, því það var viðbúið að tölvuvesen yrði yfirþyrmandi í verkefni sem ég hef tekið að mér, og sú var heldur betur raunin. Ekkert er eins leiðinlegt og að glíma við illa hannaðan hugbúnað og reyna að fá hann til að virka (nb ekki eigin hugbúnaður!), þar sem vandamálið snýst um hvað er að blokkera netskeyti - af hverju virkar þetta ekki á server, en keyrir fínt á annarri vél - af hverju virkar það ekki sem service osfrv osfrv. Og maður freistast til að halda að hægt sé að nota lógískt innsæi í svona málum þegar þetta er bara lásí böggur! Þá er bara að sætta sig við málamiðlun; lausn sem lætur þetta ganga einhvernveginn, en langt frá því að vera eins og maður vildi. Held að 90% af tölvumönnum glími við svona vandamál á hverjum degi.

En svona vitleysa er ekki fyrir mig. Þessvegna þurfti ég að ramma inn þessa raun, annarsvegar með lítilli skissu á kaffitári snemma í morgun, og svo kvöldstemmningu á Hljómalind nú fyrr í kvöld.


      

Ennfremur fór ég að sjá Little Children með Hauki Má áðan. Myndin byrjaði svo vel og var svo áhugaverð framan af, en svo tók handritið allt í einu stórskrítna U-beyju þs reynt var að taka þræðina alla saman í einhverja fyrirsjáanlega lausn! Það var svo mikill óþarfi og gekk hreinlega að myndinni dauðri. Samt mjög gaman og þess virði að sjá hana!
Þarmeð var deginu reddað og ég lifði af.