föstudagur, 27. júlí 2007

Virðist svo einfalt

Gleymi stundum hvað músík skiptir mig miklu máli og í dag datt ég inn í youtube og fann eitthvað sem snart mig djúpt. Hér er eitthvað:

Fyrst Katie Melua - Allir vita hver hún er, en ekki þá og þarna! Gaman að þessum kröfuhörðu frökkum sem hlusta á nýja músiktalentið.

Svo er það Eva Cassidy sem ég vissi ekkert um fyrr en núna áðan. Hún er reyndar ekki lifandi lengur - varð 33ja ára og dó 1996. Hér syngur hún, og svo málaði hún einnig (1,2,3), teiknaði og bjó til skúlptúra. Svo kemst ég að því að bróðir hennar er Dan Cassidy fiðluleikari sem búsettur er hér á landi.

Þessar konur eru óhræddar að setja hlutina fram svo ótrúlega fínlega, og tekst það án þess að klúðra eða að slái út í væmni. Eitthvað sem fáir leggja út í nú til dags. Einlæg leit gerir mann jafnframt svo berskjaldaðan. Fólki liggur eflaust jafnmikið á hjarta í dag og áður, en treystir sér ekki. Auðveldara að fela sig bak við einhvern grodda eða óskiljanlega hugmyndafræði. Eða bara gera ekki neitt og finnast fátt. Nei þetta er ekki rétt hjá mér. Það er fullt spennandi að gerast! Ég ætla að taka þessar stúlkur mér til fyrirmyndar - Legg allt í sölurnar og stefni berskjaldaður af stað í barnslegri einlægni að bjargbrúninni eins nálægt og ég hef hæfileika til. Bla bla bla
Afsakið leiðindin og biturðina. Ég hressist örugglega við næstu mynd!

Annars var þátturinn Á sumarvegi með besta móti í gær. Hlustið á þetta ef þið viljið heyra skelegga og stórskemmtilega innsýn á fjölmargt sem skiptir máli!

fimmtudagur, 26. júlí 2007

Á Kaffitári




Annarsvegar mynd frá síðustu viku og svo nú í morgun. Fegurð kvenna er eitt af viðfangsefnunum og ekki tekst alltaf að koma henni til skila, þó að hún blasi við manni.

mánudagur, 23. júlí 2007

Kátir dagar

Bárður bauðst til að keyra mig til Þórshafnar á Langanesi, með viðkomu í Flateyjardal og Bárðardal þar sem hann ætlaði að egna fyrir fisk. Þetta var fín ferð þó að enginn fengist fiskurinn. Það er aldeilis fallegt í Bárðardal, og magnað að sjá Svartá renna út í jökulfljótið hvíta.
Fyrsta skissan er af fjallinu og vatninu í Svartárkoti, en Tryggvi bóndi var að vitja um netin. Þarna var einstök birta. Fengum svo sitthvora bleikjuna úr vatninu í soðið.



Á Þórshöfn gerði ég þessar tvær skissur fyrsta kvöldið,

      


og næsta morgun hófst svo útimarkaður fjölskylduhátíðarinnar "Kátir dagar" sem stóð þar yfir og hellti ég mér út í portrett myndirnar. Það var frábært veður, og stanslaust teiknað í 6 klst. Hér er sýnishorn af þessum kitch portrett myndum sem ég geri og allir elska!


Svona mynd dútla ég mér við í 30-45 min.

Svo var slappað af næsta dag, farið niður i fjöru og þar hreppti 'Hafdís' hafmey verðlaun sem fallegasta sandlistaverkið. Annars átti Móey dóttir Rúnars allan heiðurinn að verkinu - við Jonni vorum bara vinnumennirnir.

Hafdís strönduð í flæðarmálinu

Móey Rúnarsdóttir sigurviss

Frábært að vera þarna úti á langanesi. Allt annað tempó og allir svo vingjarnlegir, heilsast úti á götu og lengi spjallað. Þórshafnarbúar setja markið hátt - stefna að því að gera bæinn sinn stöndugan og fjölskylduvænan án þess að stóla á túrismann. Mér sýnist það ganga bara sérdeilis vel. Svo verða ferðamenn bara auka bónus. Þarna er líka hægt að kaupa fínt hús á milljón eða minna. Sjáum til. Vona bara að ég komist á "Káta daga" að ári.

Nú er maður kominn aftur í "borg óttans" eða Reykjavíti eins og þeir Þórshafnarbúar kalla þetta stressbæli. Ég er ánægður með ferðina - engar vatnslitamyndir að vísu, en þær koma seinna. Held ennþá í kyrrðina úr sveitinni, og Reykjavík er sjarmerandi sem stendur...

mánudagur, 16. júlí 2007

Bjarni í sólinni


Bjarni Bernharður sló öllum út þegar hann mætti á Mokka eftir hádegi.
Hann er í góðum gír þessa dagana, enda er hann með frábæra sýningu á Litla Ljóta Andarunganum í Lækjargötu. Stóru myndirnar í salnum fyrir innan eru súper! Ekkert síðra en margt COBRA dótið sem við sáum á dögunum. Batnandi manni er best að lifa.... sérstaklega þegar hann er SVONA töff!

(Á myndina vantar grænan kúlu-tússpenna sem stakkst upp úr brjóstvasanum á jakkanum og fullkomnaði stílinn)

sunnudagur, 15. júlí 2007

Skrifað á Mokka

Páll Elísson vinnur að reynslusögu sinni á Mokka

Verð að benda á tvo þætti í útvarpinu í morgun sem dugðu heldur betur sem bitastætt nesti fyrir hugann á þessum dýrðardegi.

Elías Davíðsson var gestur í þætti Ævars Kjartanssonar 'Framtíð lýðræðis' og ræddi hann á mjög gegnsæjan og skarpskyggnan hátt, um eignarrétt, peningavald, frelsi og lýðræði - og hvet ég eindregið til þess að fólk hlusti á þennan þátt. Með Ævari var Árni Þór Árnason, titlaður umræðustjóri, sem veitti Elíasi viðnám, en sú umræðustjórn hafði yfir sér blæ bláleitrar ritstýringar.

Eftir lýðræðisþáttinn kom hinn stórskemmtilegi 'Úlfaldar & mýflugur' sem er minn uppáhalds þáttur nú um stundir og fjallar hann næstum því um skordýr! (Þeas fjallað er um annarskonar gersemar) Í þessum þætti er meðal annars sagt frá einkar flínkum skákmönnum.

Hér er svo fyrsta mynd dagsins:
Krotað á Kaffitári við samræðum vinanna um mótorhjól og annað ómerkilegt

Og sú síðasta:
Davíð (til vinstri) skrifar við sjóinn

laugardagur, 14. júlí 2007

Fyrir utan Mokka



Fríða

Berglind

Að gera upp daginn....



Fríða á Mokka með kaffi

Snúinn Haukur í miðnætursól


Ekki ánægður með þessa mynd af Hauki en læt hana samt fljóta með. Minnir of mikið á myndir sem hafðar voru fyrir ofan rúmgaflinn á heimilum hér áður fyrr. Dugar í þetta sinn til að setja punkt yfir daginn.

föstudagur, 13. júlí 2007

Í leit að mótífi

Davíð heimspekingur við skriftir á miðnætti.

Ég er hættur að botna í veðrinu á íslandi. Það er búið að vera stórbrotið nú í um mánuð. Hver dagurinn rekur annan þar sem maður hreinlega stynur undan mollunni á leið upp Bankastrætið, og þarf jafnvel að flýja inn á Mokka til að verða ekki alvarlega sólbrúnn. Í dag var mikið setið úti, pælt, notið blíðunnar og mannlífið virt fyrir sér.
Um kvöldið ætlaði ég að kíkja á Babalú, en hitti þá Davíð Kristinsson heimspeking frá Berlín fyrir utan. Klukkan um 23 og ennþá bjart og nóttin ung, en öll rólegu kaffihúsin með interneti að loka. Davíð ætlaði að kíkja niður á bryggju og vinna smávegis við skriftir, og slóst ég í för. Merkilegt að hitta alla þessa heimspekinga svona á færibandi síðustu daga, og merkilegt líka að hitta svo einn sem vildi fara á þann stað sem myndlistarmaður hefði helst kosið í leit að mótífi. Davíð settist út á bryggju skammt frá Kaffivagninum og vann þar eins og hann væri staddur í Berlín á sumarkvöldi. Það var kominn smá hrollur í okkur eftir uþb klukkustund þegar batteríið í tölvunni var búið. Svo var dáðst að ótrúlegu sólsetri út við sundin blá.
Árni Gull á Kaffitári í morgun.

miðvikudagur, 11. júlí 2007

Að njóta sín.

Haukur Már teiknar close-up til að gera senuna áhrifameiri.

Alveg frábær dagur. Mikið hangs en samt miklu áorkað. Óli færði mér bókargjöf - "Sunnan við mærin, vestur af sól" - Haruki Murakami. Sagði að ég mundi elska hana. Hlakka til að lesa á eftir. Hitti einnig Bjarna Júlíusson og var spáð í fljótlegustu leiðina til að bjarga heiminum. Svo bara frí út í eitt út um allt! Jú reyndar með smá hléum til að pæla í forritun á atburðarstýrðri hljóðeiningu.
Nú í kvöld sátum við Haukur fyrir utan Hljómalind, og hann teiknaði storyboard á meðan ég teiknaði hann. Mínar bestu stundir.


Hér er svo mynd gerð á hundrað af Sigga ljósmyndara í gær að ganga frá kamerunni á Mokka. Held ég hafi bara náð honum!

þriðjudagur, 10. júlí 2007

Erfiðir andar



Egill Arnarson

Valur Brynjar Antonsson

Suma menn er erfitt að teikna, sökum þess að þeir koma manni svo misjafnlega fyrir sjónir eða eru hreinlega of flóknir karakterar til að geta gert þeim alfarið skil í einni sviphendingu. Því getur verið auðveldara að teikna manneskju sem maður þekkir ekki neitt, heldur en einhvern sem er sífellt að koma manni á óvart.

Þetta á við um heimspekingana sem ég þekki. Nýlega gerði ég þessa mynd af Agli Arnarsyni, en honum hef ég aldrei náð almennilega frekar en aðra flókna vini eins og td Hauk Má. Val Brynjar reyndi ég að teikna í gærkvöldi -tilraun til að fanga andrúmsloft sem var á sífelldri hreyfingu og endalaust margbreytilegt. "Listin nær ekki að grípa andann" sagði Egill að Hegel hafi sagt, en ég held áfram að reyna.

mánudagur, 9. júlí 2007

Ort á Mokka


Héðinn yrkir á Mokka

Brýnir, rýnir, bregður stíl,
brúnum þungum skartar.
Er í hundrað orða hugarvíl
hæðist, rægir, kvartar.

Þá!

Ein stuna fann í frumu líf
þá flótti rann á kör og kíf.
Andinn kveikti æði í dreyra
orðin runnu í innsta eyra,
eftir það varð ekkert fleira
áhugavert að heyra.


Héðinn Unnsteinsson
9/7 '07 AD




Héðinn samdi þetta ljóð eftir að hafa séð myndina í smíðum , sem er af honum að semja ljóðið sem hann byrjaði á eftir að hann sá myndina osfrv..

sunnudagur, 8. júlí 2007

Á Mokka

Gísli Theódórsson á Mokka.

Gabbi

Gabbi slappar af eftir matinn upp í sveit.

fimmtudagur, 5. júlí 2007

Með góðum vinum!

Frábær dagur í gær og ennþá þykist Ísland vera í suður evrópu. Fyrir hádegi á kaffitári lögðum við Óli Stefáns drög að vefsíðu fyrir Hug-mynd. Skipti yfir á Mokka um hádegi og Hafsteinn Austmann lág vel við höggi.


Svo önnur session með Óla fyrir utan mokka í sólinni sem breyttist í rólegheita stemmningu, þar sem annarhver maður staldraði við og spjallað var um heima og geima. Egill Arnarson kom og fræddi okkur um heimspekinginn Deleuze. Einar Kaffiboð gaf okkur innsýn í efnahagskerfið á íslandi. Finnur Arnar mætti með spennandi mekaniskt hreyfivandamál sem jafnvel Da Vinci hefði þurft að hugsa sig um. Sat alls til kl. 16 og var þá vel soðinn.

Bárður sótti mig á vinnustofuna um kl. 17 og var brunað í Biskupstungur á veiðistaðinn hans í Brúará. Meðan Bárður stóð einbeittur við veiði, gerði ég tilraun til að vatnslita.


Ekki alvond æfing, þ.s. langt er síðan ég hef gert mynd úti í náttúrunni. Næst tek ég stóra blokk og geri þetta markvissara. Ekkert veiddi Bárður í sólinni og golu af hafi, en þegar sólin hvarf bakvið fjöllin þá lægði og þá fór að bíta á. Tókst að rissa upp þessa mynd af veiðiklónni Bárði með fisk no. 2 á línunni.


Brátt voru komnar fjórar fínar bleikjur á land, sú síðasta 3.5 pund. Klukkan 23:30 var svo lagt af stað í bæinn á hraða sem aðeins Bárður ræður við. Haukur Már, svangur eftir siglingarnámskeið, tók svo á móti okkur í eldhúsi JL með soðnar kartöflur og var dýrindis veizla tilbúin kl. 01:00. Dásamlegt líf!

þriðjudagur, 3. júlí 2007

Allt of lítið sofið,...

Bjarni Klemenz gluggar í bók eftir japanskan höfund
- í undirmeðvitundinni er skerpt á grímuballsplottinu...

.. enda er íslenskt sumar til að vaka. Samt þarf ég að hvílast -finnst ég búinn að keyra mig út í eintómu aðgerðarleysi. Maður dansar svo mikið eftir veðri, og nú er komið einum of mikið af því góða. Nú vantar mig súld eða hreinlega slagveður til að frískast og þá get ég náð aftur fyrri aga og einbeitingu. Þetta áhyggjulausa ítalska hangs er bara annar helmingurinn, og nóg komið í bili. Samt elska ég sólinaaaaa!

Hér er svo ein kaffipots-mynd sem ég gleymdi að setja inn í fyrradag. Frönsk túristahjón fyrir utan Mokka.


Hildur

Mokkastúlkan Hildur stelst til að sitja fyrir,
en skýst af og til og afgreiðir kaffi.

sunnudagur, 1. júlí 2007

Enn einn frábær dagurinn...


Í dag hef ég verið nokkuð uppbyggilegur eftir óheyrilegt hangs alla vikuna. Teiknaði tvær myndir- önnur fantasía í kaffi, hin við tjörnina gerð með vaxlitum. Þar með hef ég speglað mig í tveimur speglum innri og ytri upplifana. Get nú með góðri samvisku gerst tæknikall á morgun og vona að halda það út alla vikuna, því nú þarf að draga björg í bú! Maður lifir ekki á því að tjá sig með þessum hætti.


Það má lesa ýmislegt úr þessum fantasíumyndum mínum- þessi er greinilega einhverskonar sjálfsmynd letinnar; allt er hálf ömurlegt og vonlaust, en kötturinn í þessu samhengi gefur til kynna að þetta sé engin svínastíja! Samt ekki beint rómantískt hjá þessum.

Annað má segja um stúlkuna að gefa öndunum brauðmola. Ég er mjög sáttur við þessa mynd. En friðurinn var úti þegar einn af þessum íslensku athafnamönnum mætti á svæðið með stóran plastpoka fullan af hestabrauði (það er gamalt brauð ætlað hestum!) og fór að grýta þessu í kvart og hálfum stykkjum út á tjörn. Allt fylltist af mávum náttúrulega og þarmeð var þetta orðið eins og í argasta helvíti. Á meðan hann stóð í þessum ósóma, talaði hann um það að eitthvað væri bogið við lífríki fuglanna, já og að sjófuglar fengu ekki nóg æti! Stúlkan yfirgaf svæðið og endurnar syntu burt og eftir voru bara híenurnar. Samt finnst mér mávarnir svaka flottar híenur fuglaríkisins!

Loksins kom hitaskúr í kvöld til að bjarga öllum gróðrinum ... og kálinu.