föstudagur, 13. júlí 2007

Í leit að mótífi

Davíð heimspekingur við skriftir á miðnætti.

Ég er hættur að botna í veðrinu á íslandi. Það er búið að vera stórbrotið nú í um mánuð. Hver dagurinn rekur annan þar sem maður hreinlega stynur undan mollunni á leið upp Bankastrætið, og þarf jafnvel að flýja inn á Mokka til að verða ekki alvarlega sólbrúnn. Í dag var mikið setið úti, pælt, notið blíðunnar og mannlífið virt fyrir sér.
Um kvöldið ætlaði ég að kíkja á Babalú, en hitti þá Davíð Kristinsson heimspeking frá Berlín fyrir utan. Klukkan um 23 og ennþá bjart og nóttin ung, en öll rólegu kaffihúsin með interneti að loka. Davíð ætlaði að kíkja niður á bryggju og vinna smávegis við skriftir, og slóst ég í för. Merkilegt að hitta alla þessa heimspekinga svona á færibandi síðustu daga, og merkilegt líka að hitta svo einn sem vildi fara á þann stað sem myndlistarmaður hefði helst kosið í leit að mótífi. Davíð settist út á bryggju skammt frá Kaffivagninum og vann þar eins og hann væri staddur í Berlín á sumarkvöldi. Það var kominn smá hrollur í okkur eftir uþb klukkustund þegar batteríið í tölvunni var búið. Svo var dáðst að ótrúlegu sólsetri út við sundin blá.
Árni Gull á Kaffitári í morgun.

Engin ummæli: