sunnudagur, 1. júlí 2007

Enn einn frábær dagurinn...


Í dag hef ég verið nokkuð uppbyggilegur eftir óheyrilegt hangs alla vikuna. Teiknaði tvær myndir- önnur fantasía í kaffi, hin við tjörnina gerð með vaxlitum. Þar með hef ég speglað mig í tveimur speglum innri og ytri upplifana. Get nú með góðri samvisku gerst tæknikall á morgun og vona að halda það út alla vikuna, því nú þarf að draga björg í bú! Maður lifir ekki á því að tjá sig með þessum hætti.


Það má lesa ýmislegt úr þessum fantasíumyndum mínum- þessi er greinilega einhverskonar sjálfsmynd letinnar; allt er hálf ömurlegt og vonlaust, en kötturinn í þessu samhengi gefur til kynna að þetta sé engin svínastíja! Samt ekki beint rómantískt hjá þessum.

Annað má segja um stúlkuna að gefa öndunum brauðmola. Ég er mjög sáttur við þessa mynd. En friðurinn var úti þegar einn af þessum íslensku athafnamönnum mætti á svæðið með stóran plastpoka fullan af hestabrauði (það er gamalt brauð ætlað hestum!) og fór að grýta þessu í kvart og hálfum stykkjum út á tjörn. Allt fylltist af mávum náttúrulega og þarmeð var þetta orðið eins og í argasta helvíti. Á meðan hann stóð í þessum ósóma, talaði hann um það að eitthvað væri bogið við lífríki fuglanna, já og að sjófuglar fengu ekki nóg æti! Stúlkan yfirgaf svæðið og endurnar syntu burt og eftir voru bara híenurnar. Samt finnst mér mávarnir svaka flottar híenur fuglaríkisins!

Loksins kom hitaskúr í kvöld til að bjarga öllum gróðrinum ... og kálinu.

Engin ummæli: