mánudagur, 30. apríl 2007

Ábyrgð og vanræksla

Að hugsa sér að eftir kvöldið í kvöld, þá verður ekki hægt að skreppa á Mokka á kvöldin, sitja með vinum í þessarri vöggu reykvískrar kaffihúsamenningar. Þó svo að sumarið sé komið og túristar farnir að mæta, þá sáu eigendur sér ekki fært að halda staðnum opnum á kvöldin - ákvörðun sem líklega var tekin í skammdeginu og frosthörkunni fyrir meira en tveim mánuðum síðan, þegar fólk trúir ekki að sólin eigi eftir að brótast fram þrátt fyrir allt. Þvílík mistök. Stundum finnst mér allt það besta fari að lokum hallloka í þessum heimi, láti undan og víki fyrir öðrum gildum og hugsjónin deyr með fyrri kynslóð.

"Segjum biturt bless, mæting kl.21 - helst fyrr"

                  

miðvikudagur, 25. apríl 2007

Barði á Mokka.

þriðjudagur, 24. apríl 2007

Vorið góða

Hér eru tvær skissur gerðar ekki af sál heldur heila.

Kaffitár


Súfistinn (M&M), Iðunn og Sigga


Ég hef ekki verið í stuði þessa dagana til að láta hrífast, en hef pínt mig til þess... en það stendur til bóta! Þegar afgreiðslustúlka á kaffihúsi fer að segja mér tælandi sögu um sjálfa sig og bílvél upp úr þurru, þá finn ég að ég fer að taka eftir ýmsu. Hér áður fannst mér ég lifa fyrir konur, allt sem ég gerði var vegna þeirra, en svo smátt og smátt reyndi ég að finna tilgang fyrir sjálfan mig ... eins og asni. Nú eru galdrakonur út um allt og ekki of seint að losna úr álögum.

þriðjudagur, 17. apríl 2007

Ótrúleg mynd

Ekki missa af heimildarmyndinni "Prirechnyy" eftir norsku heimildarmyndargerðarkonuna Tone Grøttjord. Viðfangsefnið er vissulega áhugavert og best að vita sem minnst, en myndin sjálf er listaverk. Hún verður sýnd aftur í Tjarnarbíói eftir viku. Myndirnar sem RDW er að sýna verða alltaf betri og betri! Hvar endar þetta Emiliano???


Eftir sýninguna í fyrradag var kíkt í súpu/bjór og sú stund fest. Egill skýr og tær og Paul lærði margt um íslenskan veruleika. Í baksýn er Katla og vinur.

Þarf að skrifa meira um hvernig gengur hjá mér. ..fljótlega. Á meðan er hér eitt brot af því sem gerir mig svona glaðan á morgnana; Tony og Stevie, og svo Ella.

fimmtudagur, 5. apríl 2007

Morgunmúsik...

      
Hér eru tvær mokkamyndir frá síðasta mánuði sem gleymdust. Skrítið hvað maður er misvel upplagður til að teikna. Og yfirleitt veit ég áður en ég byrja hvort ég nái að gera sæmilega mynd. Öllu heldur; Ég byrja ekki nema ég sjái eitthvað sem heillar, og um leið hef ég sterka tilfinningu hvernig ég gæti náð því, og svo byrjar maður.

Er dottinn inn í youtube og eins og aðrir alvöru bloggarar freistast ég til að linka á tvær músikupptökur. Söngkonan Carole King hefur alltaf heillað mig með sinni sérstöku hrjúfu rödd - hélt að hún væri lítil, svört og feimin... líklega út af myndinni á umslaginu á "Speeding Time". Hún er enn að syngja komin yfir sextugt, og flottari en nokkru sinni a la Tina Turner.

Hér er eitt lag með henni sem ég bara elska.
En ekki má sleppa því að sjá lagið flutt af Arethu Franklin. Alveg hreint út sagt stórkostlegt...

sunnudagur, 1. apríl 2007

Hvernig væri að hugsa smá....!

Hafnfirðingar kusu gegn stækkun álversins í Straumsvík. Þrátt fyrir að Rist hótaði að fara á hausinn og þó að allir sem hagsmuni hafa af veru álversins mættu á kjörstað - þetta var nánast kosning INNAN fyrirtækisins um framtíð þess og samt var það fellt. Eru einhverjir sem fengu ekki að vera með í þessarri kosningu sem hefðu getað breytt þessum úrslitum? Hvaða hagsmunaðailar eru það? Hefði hinsvegar kosningin farið á hinn veginn, þá hefði heldur betur verið hægt að svara þessarri spurningu. Það hefði hreinlega verið öll þjóðin sem hefði haft eitthvað um þetta að segja! Því hver einasti einstaklingur sem er eitthvað annt um þetta blessaða land hefur hagsmuni að verja. Á þessu hafa hinir Hafnfirðingarnir áttað sig og ég þakka þeim af öllu hjarta.

Mér skilst að allir séu mjög sáttir með slíka íbúakosningu eins og fram fór í Hafnarfirði. Getur það virkilega verið? Er ekki eitthvað meira en lítið bogið við það að kjósa um málefni sem varðar alla þjóðina, en að nánast einungis þeir sem hafa beinan hag af framkvæmdinni fái að kjósa? Mikilvægt er að átta sig á því að svona lagað má ekki endurtaka sig. Á teikniborði Landsvirkjunar eru stóriðjuáform sem varða alla þjóðina og mikilvægt að staðið verði öðruvísi að ákvarðanatöku í framtíðinni.

Annað sem hefur heldur betur hrist upp í manni er strandhögg Slavoj Zizek á íslandi. Sýnd var kvikmyndin "A perverts guide to cinema" hjá RDW og svo hélt hann fyrirlestur í Öskju sem hét "Can Art still be subversive?". Þvílíkt intensity! Maðurinn hefur alveg ótrúlegan presance, tekur allt fyrir frá svo spennandi sjónarhorni og er hluti af þessarri upplifin að fylgjast með honum hugsa með öllum sínum látbrögðum og kækjum. Oft þegar maður heyrir í fræðimönnum og þeirra lærðu kenningum, þá drepur það hreinlega efnið (?!), en Zizek opnar dyr, gæðir allt nýju lífi og magnar upp upplifunina á viðfangsefninu sbr. kvikmyndaanalísa hans á t.d. Chaplin "City lights". Hér er önnur analísa hans á senu úr Casablanca.
Haukur Már á veg og vanda að þessarri hressandi heimsókn Zizek. Frábært!


Mér gengur vel að forrita CMS kerfið mitt fyrir vefsíður, en ákvað í dag að slaka á og gera mynd og það varð úr. Myndin er af Vésteini. Van Gogh var óhræddur að setja gulan lit í bakgrunninn, en ég teikna bara það sem ég sé og til allrar hamingju er veggurinn á Kaffi Tári svona gulur!