fimmtudagur, 5. júlí 2007

Með góðum vinum!

Frábær dagur í gær og ennþá þykist Ísland vera í suður evrópu. Fyrir hádegi á kaffitári lögðum við Óli Stefáns drög að vefsíðu fyrir Hug-mynd. Skipti yfir á Mokka um hádegi og Hafsteinn Austmann lág vel við höggi.


Svo önnur session með Óla fyrir utan mokka í sólinni sem breyttist í rólegheita stemmningu, þar sem annarhver maður staldraði við og spjallað var um heima og geima. Egill Arnarson kom og fræddi okkur um heimspekinginn Deleuze. Einar Kaffiboð gaf okkur innsýn í efnahagskerfið á íslandi. Finnur Arnar mætti með spennandi mekaniskt hreyfivandamál sem jafnvel Da Vinci hefði þurft að hugsa sig um. Sat alls til kl. 16 og var þá vel soðinn.

Bárður sótti mig á vinnustofuna um kl. 17 og var brunað í Biskupstungur á veiðistaðinn hans í Brúará. Meðan Bárður stóð einbeittur við veiði, gerði ég tilraun til að vatnslita.


Ekki alvond æfing, þ.s. langt er síðan ég hef gert mynd úti í náttúrunni. Næst tek ég stóra blokk og geri þetta markvissara. Ekkert veiddi Bárður í sólinni og golu af hafi, en þegar sólin hvarf bakvið fjöllin þá lægði og þá fór að bíta á. Tókst að rissa upp þessa mynd af veiðiklónni Bárði með fisk no. 2 á línunni.


Brátt voru komnar fjórar fínar bleikjur á land, sú síðasta 3.5 pund. Klukkan 23:30 var svo lagt af stað í bæinn á hraða sem aðeins Bárður ræður við. Haukur Már, svangur eftir siglingarnámskeið, tók svo á móti okkur í eldhúsi JL með soðnar kartöflur og var dýrindis veizla tilbúin kl. 01:00. Dásamlegt líf!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góðir í sveitinni.
Kveðjur Daði