Morgunverður fyrir 250 manns
Til að brjóta upp hættulega rútinu eða öllu heldur til að hrista aðeins upp í tilverunni þá sótti ég um vinnu í eldhúsi og var ráðinn. Ekki fulla vinnu - hef enganveginn efni á því. Verð til taks í neyðartilfellum þegar bráðvantar hjálparhönd. Fyrsti vinnudagur var í gær - mættur kl. 06:00 til að útbúa morgunmat fyrir 250 manns. Ég ásamt fjórum röskum konum, höfðum 2 tíma til stefnu. Tók skurn af eggjum í um klukkustund! Og ég sem hélt að continental breakfast yrði bara til af sjálfu sér! Í beinu framhaldi var svo útbúinn hádegismatur. Ruby vinkona og matselja er frábær kokkur. Stemmningin er mátulega stressandi en allt er vel skipulagt og bara mjög gaman. Svo kl. 13 var ég búinn, og satt að segja var ég búinn að vera restina af deginu. Svona þurfa konurnar í eldhúsinu að vinna alla vikuna, fyrir kr. 800 á tímann (fyrir skatta). Og ég er í þessu til að fá hressandi tilbreytingu! Þetta er nú meira niðrávið snobbið hjá mér! Hvað svo sem má kalla þetta, þá skila ég góðri vinnu og brýt ekki allt of mörg bollastell.
Verra var að ég hefði viljað fara í matarboð hjá Ollu og Emiliano um kvöldið, þar sem kvikmyndagerðarkonan Aliona van der Horst var líka boðið svo og fleiri vinum, og Emiliano ætlaði að elda lamb. Ég afboðaði komu mína og sofnaði útfrá kassanum um kvöldmatarleitið alveg útkeyrður.
Emiliano Monaco er búinn að stofna Reykjavik Documentary Workshop, og var fyrsta verkefni að sýna myndina Voices of Bam efir Alionu van der Horst á fimmtudagskvöldið var í Norræna Húsinu. Myndin fjallar um áhrif jarðskjálftans á fólkið í borginni BAM í Íran 2004. Myndefni og frásagnir fólks sem eftir lifðu segja átakanlegar sögur, sem raðað er saman á nærgætinn og alúðlegan hátt, án nokkurrar skrumskælingar. Þetta fannst mér nokkuð vel af sér vikið, þó svo að stundum hafi myndin verið einum of látlaus. Takk RDW og hlakka til að sjá meira!
Barði Einarsson er kominn aftur til Íslands. Þetta skilja bara vinir mínir eins og margt annað sem ég skrifa hér. Það er skrítið að eftir 17 ár, þá er eins og Barði hafi bara verið hér síðast í gær- hann hefur ekkert breyst! Mér finnst hinsvegar að hálf ævi mín hafi liðið hjá á þessum sama tíma.
Ennþá held ég áfram að njósna um fallegar konur. Í staðinn fyrir að teikna Ágústu Evu á Kaffitári, þá var önnur sem sneri vanganum að mér fyrir valinu. Brosti hinsvegar til Ágústu Evu, og fékk Silvíu Nætur viðbrögð í formi niðurlægjandi fliss! Já ég átti það svo sannarlega skilið :o)
Þó handbragðið sé ennþá ekki orðið eins laust og ég hefði óskað, þá er ég ánægður með fínulegu teikninguna.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli