Hef verið nokkuð eirðarlaus undanfarið - hugurinn út um allt, og líka margt sem mæðir á manni. Allskonar reddingar fyrir fólk sem ég kann ekki að vísa frá. En það er líka bara fínt. Er mikið að hugsa um sýningar sem mig langar að halda í vetur á öðru hvoru kaffihúsanna eða bara báðum. Sú sýning sem ég geri pottþétt er sýning á Kaffitári og hefur fengið nafnið 'Virkar eldstöðvar'. Þar verða gestir kaffihússins að spúandi eldfjöllum! Stefni á þetta í desember, þegar minnst er ljósið. Verður mjög áhrifamikið og skemmtilegt. Svo er það hugmynd sem kviknaði áðan á mokka, þar sem ég beið eftir kaffibollanum og horfði á dökku veggina. Mála stóra fleti sem fylla út í veggina (með kaffi auðvitað), sem eru senur inn í ný herbergi og álmur í sama stíl og mokka interior. Maður horfir á vegginn og sér þá mynd sem sýnir nýtt rými í Mokka -fleiri borð og stóla og aðra veggi og þar eru myndir á veggjunum. 'Sýning í sýningu' verður þetta. Hálf kjánalegt, en gæti samt verið spennandi illúsjón, sem að vísu virkar bara frá vissu sjónarhorni, en væri ansi undarlegt frá öðrum. Veit ekki... en svo finnst mér eiginlega meira spennandi að reyna að útfæra einhverskonar ljósverk á mokka. Hef mikinn áhuga á verki sem er í ramma, flötur eins og mynd, þ.s. notað er matt plexigler og ljósdíódur sem er stýrt til að láta element birtast og hverfa. Svo má láta mörg svona verk tala saman, þ.a. þegar eitt kviknar þá fer næsta í gang eftir einhvern tíma og svo næsta og þá verða til melodíur og riþmar. Finnst það mjög spennandi! Ein hugmynd með svipaðri tækni sem ég sá fyrir mér í dag á Mokka var mjög látlaust ljós-verk með myndum af reikistjörnum okkar sólkerfis - ein pláneta á hverri mynd, og væri hægt að búa til effect af lofthjúp eða snúningi í stílfærðum ævintýrablæ, eins og maður sér stundum mynd af fossi á hreyfingu á kínverskum veitingastöðum. Pláneturnar væru frekar litlar á fletinum miðjum en innbyrðis hlutfallslega í réttri stærð miðað við hvor aðra og svo væri sólin iðandi og risastór fyrir endann - "The sun is a raging monster!" , eins og einhver sagði. Já svona hugmyndir fæðast eftir að hafa hjólað upp Bankastræti og Skólavörðustíg á fullu og flautað á meðan 'An die Musik' óaðfinnanlega!
Eftir mokka voru teknar nokkrar skákir í þvílíku sólskini á Thorvaldsen við Austurvöll. Tapaði 5 skákum í röð fyrir Grími! Var með hugann við annað, sagði stopp og sleikti sárin með vaxlitum...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli