Nú er það svart!
Menn vorum óvenju hressir á Mokka í hádeginu og FÖGNUÐU hruni frjálshyggjunnar á Íslandi, þrátt fyrir að svipurinn á Pjetri gæti látið mann halda hið gagnstæða.
Síðustu dagar hafa verið kvíðablandir, eitthvað sem ég hélt að gæti ekki gerst lengur, en kvíði er eitt af því sem verður ekki umflúið stundum - eins og sársauki í kjölfar meiðsla. En með kvíðann er stundum erfitt að finna meinið. Í gær náði ég hinsvegar smá sambandi við sjálfan mig aftur, og við haustið. Það var fallegt veður, og eftir Mokka (þar sem ég teiknaði lélega mynd af Bárði bara svona í dútli), löbbuðum við Sváfnir á yfirlitssýningu Braga Ásgeirssonar á Kjarvalsstöðum. Við vorum sammála um að gömlu kúbísku verkin væru mest spennandi og epoxy-relief myndirnar ekki alveg fyrir okkur. Svo aftur á Mokka og þá gerði ég þessa mynd í anda Braga útfrá myndinni af Bárði.
Eitt af því sem ég lendi undantekningalaust í þegar ég er að segja frá því hvað ég bauka, fyrir utan kaffihúsahangsið, er að fólk spyr mig hvort ég ætli ekki að sækja um einkaleyfi á hinu eða þessu sem maður er að fást við. Fólk meinar kannski vel með þessu, en ég er orðinn ansi pirraður á því að heyra þetta komment og bregst yfirleitt við með því að segja með hneykslan að svoleiðis tímaeyðsla sé bara fyrir þá sem fái lélegar hugmyndir í því skyni að hagnast á þeim og finnist ekkert tiltökumál að eyða ævi sinni í að skrifa einhvern þann leiðinlegasta og þurrasta texta sem einkaleyfisumsókn er, svo ekki sé minnist á samskipti við lögfræðinga á einkaleyfistofunum. Frekar vildi ég sjá góðar hugmyndirnar útfærðar, ef ekki af mér þá bara einhverjum öðrum. Einkaleyfi eru eins og tryggingar - fyrir þá sem hræðast lífið.
Annars er ég með einkaleyfi á Bjarna Bernharði! Hann er svo frábært mótíf :O)
.. eða "Sérlagað kaffi" er eitt af því sem nýju stúlkurnar á Mokka þurfa að læra fljótlega eftir að þær byrja. Ég enda yfirleitt á því að teikna skýringarmynd í fjórum liðum svo það klúðrist nú örugglega ekki. Þær eru misflinkar að laga kaffi spes, og mis áhugasamar eins og gerist og gengur. En ein þeirra leggur sig sérstaklega fram og spyr mig jafnvel í framhaldi hvaða einkunn spesið fær. Um daginn gleymdi ég alveg að segja henni að þetta væri besti bollinn frá upphafi, heldur var bara í sæluvímu eins og vanþakklátur eiginmaður sem heldur að allt sé sjálfsagt sem fyrir honum er haft. Einnig var kaffiblekið alveg af réttri þykkt fyrir þá mynd sem ég ætlaði að gera. Svo þegar ég sýndi henni myndina þá held ég að hún hafi verið mjög sátt með einkunnina.