mánudagur, 29. september 2008

Nú er það svart!

Á kaffihúsinu í Iðu

Pjetur Hafstein á Mokka í hádeginu

Menn vorum óvenju hressir á Mokka í hádeginu og FÖGNUÐU hruni frjálshyggjunnar á Íslandi, þrátt fyrir að svipurinn á Pjetri gæti látið mann halda hið gagnstæða.

fimmtudagur, 25. september 2008

Á kaffihúsinu í Iðu

Tölurnar stemmdar af í gærkvöldi á Iðu kaffihúsi

miðvikudagur, 24. september 2008

Ljósmynd og fantasía

Mokka

Stillife with coffee


Því sýni ég ekki bara ljósmynd af blessaða borðinu á Mokka? Af hverju tek ég ekki bara ljósmynd og mála svo eftir henni? Svona photorealístískt prump! Já, ég er pirraður yfir því hvernig allir falla fyrir og dýrka það glansandi yfirborð sem hjúpað er utanum ekki neitt. Efnið er allt, hnökralaust og án skrítinna persónulegra sérkenna sem gætu virkað truflandi. Allt skal vera sálarlaust og dautt. Hér er tilraun til að gera dauða mynd. Kyrrlífsmynd með kaffi. Tekst samt ekki að ná photorealisma - allt fullt af sérkennum - hvað er að mér??

Annars í alvöru talað þá er ég alveg hættur að gera fantasíur - fígúrutífar myndir eins og ég var vanur. Áður var önnurhver mynd í skissubókinni svoleiðis - unnið hálf ómeðvitað, en náði tilfinningu sem var að brjótast í manni - yfirleitt eitthvað ástíðufullt. Nú er ég hálf daufur þannig og það sést.
Hér er svo smá dútl á servíettu í gær.


Mokka

sunnudagur, 21. september 2008

Sjáum til...

Ragnar
Ragnar fastagestur á Mokka í gær

Hugmyndin var að halda sýningu á Mokka í október, en til þess þurfti styrktaraðila sem ekki fékkst að þessu sinni. Mér er hálf létt. Þetta hefði náðst þó að um mjög flókna tæknilega útfærslu var að ræða, en betra er að gera þetta vel og vandlega því hugmyndin er mjög spennandi og verður geymd bak við eyrað til betri tíma. Mér var boðið að halda jólasýningu í staðinn - sjáum til - eitthvað allt annað. Nú þarf ég að hætta að líða um í draumheimi. Þeir sem ég hef svikið eru ekki lengur teljandi á fingrum annarrar handar, og því nauðsynlegt að taka smá vinnutörn í næstu viku! Bara gaman!

Mokka
Í hádeginu í gær

föstudagur, 19. september 2008

Á Mokka..

Beta baun

eftir hádegi, af  Betu baun

mánudagur, 15. september 2008

Elsku Nabokov

Síðustu dagar hafa verið kvíðablandir, eitthvað sem ég hélt að gæti ekki gerst lengur, en kvíði er eitt af því sem verður ekki umflúið stundum - eins og sársauki í kjölfar meiðsla. En með kvíðann er stundum erfitt að finna meinið. Í gær náði ég hinsvegar smá sambandi við sjálfan mig aftur, og við haustið. Það var fallegt veður, og eftir Mokka (þar sem ég teiknaði lélega mynd af Bárði bara svona í dútli), löbbuðum við Sváfnir á yfirlitssýningu Braga Ásgeirssonar á Kjarvalsstöðum. Við vorum sammála um að gömlu kúbísku verkin væru mest spennandi og epoxy-relief myndirnar ekki alveg fyrir okkur. Svo aftur á Mokka og þá gerði ég þessa mynd í anda Braga útfrá myndinni af Bárði.

Bárður

Bárður á Mokka fyrir og eftir áhrif frá Braga.

Breytti henni svo í fölsun með því að setja undirskriftina. Hún fer hinsvegar ekki úr skissubókinni, og mun aldrei verða tekin sem original því hún er drasl - bara fíflalæti hjá okkur plebbunum.

Á leiðinni heim kom ég við á Borgarbókasafninu og fann þar í 100kr hillunni bók sem hét "Elsku Margot", sem við fyrstu sýn virtist vera einhver eldheit ástarsaga af kápunni að dæma, en eftir Nabokov.

Þegar heim á vinnustofu var komið vissi ég að ég yrði að taka til hendinni. Hef verið að vinna eitt verkið af öðru, án þess að sópa og taka til á milli, og nú var ástandið orðið svo slæmt að ef ég lagði frá mér einhvern lítinn hlut var víst að ég fyndi hann ekki aftur nema með ærinni fyrirhöfn. Það var því vonlaust að byrja á nokkru nýju. og í gær tókst mér að byrja á tiltekt og var að til miðnættis. Þvílíkur munur. Ekki alveg búið, en nú má þó sjá að það er dúkur á gólfinu, og hægt að labba um svæðið án þess að eiga það á hættu að rekast í tölvudrasl eða fá lappir af rökrásum stingast upp í ylina á sér.

Ég er ekki frá því að kvíðatilfinningin hafi bara horfið með draslinu sem ég sópaði burtu. Einhvernveginn var lagður nýr bjartsýnn grunnur með þessari einföldu aðgerð. Klukkan 01:30 þar sem ég lá á beddanum ánægður með árangurinn, seildist ég í bókina sem ég hafði keypt fyrir 100 kallinn og hóf að lesa með eftirvæntingu.
Og það er svo merkilegt - að sögupersónan í bókinni, sem sagt er að muni yfirgefa eiginkonu sína vegna hjákonu og að allt endi með ósköpum, fær þessa dásamlegu hugmynd í byrjun bókarinnar að taka þekkt málverk og breyta í litteiknimynd - animation sem væri ferðalag inn í myndina, og drægi þannig fram hugarheim listamannsins. Ég veit ekki, en ég hef aldrei áður lesið neitt sem hefur komið mér svona mikið á óvart! Og um leið var það ekkert skrítið að þessi bók rataði til mín.

laugardagur, 13. september 2008

Látlaust

Mokka

Á Mokka.

föstudagur, 12. september 2008

Meira af því sama.

Mokka

Ketill og Ragnar á Mokka í gær.

Daði á Mokka
Daði á Mokka.

Kaffitár
Stutt stopp á Kaffitári.

mánudagur, 8. september 2008

Einkaleyfi hvað???

Eitt af því sem ég lendi undantekningalaust í þegar ég er að segja frá því hvað ég bauka, fyrir utan kaffihúsahangsið, er að fólk spyr mig hvort ég ætli ekki að sækja um einkaleyfi á hinu eða þessu sem maður er að fást við. Fólk meinar kannski vel með þessu, en ég er orðinn ansi pirraður á því að heyra þetta komment og bregst yfirleitt við með því að segja með hneykslan að svoleiðis tímaeyðsla sé bara fyrir þá sem fái lélegar hugmyndir í því skyni að hagnast á þeim og finnist ekkert tiltökumál að eyða ævi sinni í að skrifa einhvern þann leiðinlegasta og þurrasta texta sem einkaleyfisumsókn er, svo ekki sé minnist á samskipti við lögfræðinga á einkaleyfistofunum. Frekar vildi ég sjá góðar hugmyndirnar útfærðar, ef ekki af mér þá bara einhverjum öðrum. Einkaleyfi eru eins og tryggingar - fyrir þá sem hræðast lífið.

Annars er ég með einkaleyfi á Bjarna Bernharði! Hann er svo frábært mótíf :O)

Bjarni Bernharður á Mokka

Bjarni Bernharður á Mokka og sýningin hans fína á veggjunum

laugardagur, 6. september 2008

Kaffi spes...

.. eða "Sérlagað kaffi" er eitt af því sem nýju stúlkurnar á Mokka þurfa að læra fljótlega eftir að þær byrja. Ég enda yfirleitt á því að teikna skýringarmynd í fjórum liðum svo það klúðrist nú örugglega ekki. Þær eru misflinkar að laga kaffi spes, og mis áhugasamar eins og gerist og gengur. En ein þeirra leggur sig sérstaklega fram og spyr mig jafnvel í framhaldi hvaða einkunn spesið fær. Um daginn gleymdi ég alveg að segja henni að þetta væri besti bollinn frá upphafi, heldur var bara í sæluvímu eins og vanþakklátur eiginmaður sem heldur að allt sé sjálfsagt sem fyrir honum er haft. Einnig var kaffiblekið alveg af réttri þykkt fyrir þá mynd sem ég ætlaði að gera. Svo þegar ég sýndi henni myndina þá held ég að hún hafi verið mjög sátt með einkunnina.

Bjarni Bernharður

Bjarni Bernharður á Mokka


Stalst svo til að gera þessa mynd í dag:

Mokka
Gætt sér á vöfflum á Mokka

Óklárað ... og þó!

Hljómalind

Á Hljómalind í lok ágúst.


Módelið fór en í staðinn laðaðist að borðinu mínu lítil stúlka sem heitir Alda. Hún dáðist að myndinni og litunum og saman héldum við áfram að teikna myndir, stund sem ég mun ekki gleyma.