þriðjudagur, 30. janúar 2007

Mokka og ofurþéttir


Kaffi Mokka var eitt sinni daglegt brauð, en nú kíki ég inn ekki oftar en einu sinni í viku. Mokka var forboðinn staður þar sem reykurinn umlukti alla gestina, og sögurnar urðu ennþá meira spennandi fyrir vikið. En svo varð Mokka reyklaust kaffihús, og breyttist þarmeð í kaffihús fyrir fínar frúr á sunnudögum, og vöfflusalan rauk upp úr öllu valdi. Nú er að myndast einhverskonar jafnvægi - fastagestirnir sem ruku burt í fússi hafa brotið odd af oflæti sínu og láta nú sjá sig á ný, og andinn er að verða eins og áður. Ja, næstum því. Bitið vantar í staðinn!

En ef meiningin er að hitta fólk að kvöldlagi, og spjalla saman, þá er Mokka ennþá rétti staðurinn. Þessar frábæru innréttingarnar geyma nær 50 ára sögu staðarins, og þögnin og viftan skapa stemmninguna.

Í kvöld hitti ég nokkra solid Mokkamenn, Hörð, Dodda og Gunna rafvirkja. Óli kínafari leit einnig inn, og spáðum við í tækniundrin sem hugsanlega geta bjargað þessum heimi. Ég sagði honum frá ofurbatteríinu sem verið er að hanna - við megum ekki láta glepjast af einhverri vetnislausn, sem er eingöngu lausn fyrir olíufélögin. Vetnið er nefninlega hentugt til fylla á farartæki ef þú ert að leita dauðaleit að eihverju í stað olíu. En það er verið að endurbæta rafhlöðuna, eða öllu heldur þéttinn. Hverjum hefði dottið í hug að endurbæta hann! Jú, hann heitir Dr. Joel Schindall, og er linkurinn á þessar rannsóknir hans hér. (Best að skoða þessa síðu í IE)
Það tekur nokkrar sekúndur að hlaða þétti. Og hann endist yfir 300.000 hleðslur. Hvernig væri að komast frá Reykjavík til Akureyrar á einni hleðslu á rafhlöðu á stærð við venjulegan bílgeymi?

sunnudagur, 28. janúar 2007

Jói Pálma


Á Kaffitári þann 12. mars 2004,
þar sem við vorum að teikna hvor annan
Jóhann Pálmason garðyrkjumaður og góður vinur kvaddi þennan heim. Ég vil þakka fyrir þau ánægjulegu, en allt of stuttu kynni sem ég átti af Jóa. Frá því ég kynntist honum fyrst, fyrir um fjórum árum og þar til við tefldum síðustu skákina á Kaffitári fyrir tæplega tveimur vikum síðan, eru ógleymanlegar stundir við leik og störf, sem ég mun varðveita alla mína tíð.

Jói var einstaklega vandaður maður, ljúfur og traustur. Hann gerði miklar kröfur til sjálfs sín og aldrei heyrði ég hann hallmæla annarri manneskju. Hann leitaðist við að skilja aðra og var alltaf tilbúinn að veita hjálparhönd. Jói bar mikla virðingu fyrir lífinu og kom það vel fram í þeirri vandvirkni og alúð sem hann sýndi gróðri jarðar, og einnig í umgengni hans við annað fólk. Virðing fyrir öllu sem lífsanda dregur - fyrir sjálfum sér sem og öðrum manneskjum. Þessi lífsafstaða Jóa var mér oft mikil og góð lexía.

Þau tvö sumur sem ég fékk tækifæri til að spreyta mig í garðvinnunni með Jóa voru fyrir mér eins og að upplifa ævintýri. Með hverjum nýjum garði var nýtt verk að vinna, og Jói stjórnaði mannskapnum með sinni einstöku ró og yfirvegun. Verkvit Jóa var mikið, enda var hann fagmaður í sinni grein en einnig bjó hann yfir mikilli útsjónarsemi og skipulagshæfileikum. Dugnaður hans smitaði útfrá sér, allir lögðu sig fram og flókin verk voru unnin létt og tíminn flaug því lífsgleðin var allsráðandi.

Að því kom að við spreyttum okkur saman í skák, og var þá ekki aftur snúið. Vinnudagur byrjaði yfirleitt á því,að teknar voru nokkrar 5 min skákir á litla kaffihúsinu Kaffitári þar sem Ragga lagaði morgunkaffi. Þetta var hressandi leið til að vakna, og voru oft miklar sviftingar á skákborðinu og klukkubarningur, sem þó yfirgnæfði aldrei fuglabjargið; kaffikallana sem ræddu þjóðmálin sín á milli, og þar lág mönnum oft hátt rómur. Á þessum tímum hefur Kaffitár eflaust verið háværasta kaffihús í Reykjavík fyrr og síðar. Þetta reyndist frábær upprifjun á skákiðkuninni, og í framhaldi var stofnaður skákklúbbur með fleiri vinum sem tefldi á miðvikudagskvöldum í eldhúsi RA. Jóa vantaði aldrei á þær æfingar. Skákirnar við Jóa voru alltaf stórskemmtilegar. Við reyndumst vera álíka sterkir, báðir mátulega agressífir en tókum aldrei óþarfa áhættu að okkur fannst! Þó að við værum ekki að vinna saman við garðvinnu, og skákklúbburinn í varanlegu sumarfríi, héldum við Jói áfram að tefla stutt skákeinvígi á Kaffitári, og nú síðast í desember og einnig eftir áramót. Skákirnar þetta tímabil voru yfirleitt þannig að Jói tefldi 1. e4 - Rf6 2. e5 - Rd5 3. c4- Rb6 4. d4 osfrv á svart, en ég tefldi yfirleitt sikileyjarvörn með svart sem hann svaraði 2. b4, og spunnust alltaf mjög spennandi skákir úr því.

Nú þegar ég hugsa til baka, þá bregður ekki skugga á eina einustu minningu um samneyti við Jóa. Allt voru þetta ótrúlega gefandi stundir. Jói kunni að kalla fram það besta í hverri manneskju, með sinni hlýju persónu þar sem stutt var í húmor og glettni. Það er því með miklum söknuði sem ég kveð Jóa Pálma, þennan einstaka heiðursmann.

Jói! Takk fyrir skákirnar. Takk fyrir samveruna. Takk fyrir alla hjálpina. Takk fyrir allt sem þú kenndir mér. Takk kæri vinur.

fimmtudagur, 25. janúar 2007

Stíft mál


Ég hef ekki við að vinna úr því sem ég upplifi. Var þess óþyrmilega var, þegar ég settist upp í bíl hjá Bárði, sem er alltaf með nýja (og yfirleitt) spennandi músík HÁTT stillta. En í stað þess að pirrast uppfyrir haus, gat ég leitt það hjá mér og hugsaði sem svo; enn eitt material sem hellist yfir mann - best að vera ekkert að berjast, látum það bara koma. Við vorum að fara að sjá kvikmyndina Babel (Alejandro González Iñárritu), sem var mögnuð. Í fyrradag sá ég Grizzly Man (Werner Herzog) sem er stórmerkileg heimildarmynd. Ég fór í leikhús í síðustu viku og sá Bakkynjur eftir Evripídes, sem var ekki góð sýning (Eini plúsinn var Guðrún Gísladóttir í sínu hlutverki sem móðirin, og leikmyndin. Mikið efni í frábærum texta sem hefði mátt leikgera svo spennandi, en í staðinn var látið nægja að þylja upp textann, og það svo illa að maður nennti varla að leggja við hlustir).

Nú vil ég frið og ró. Skammtímaminnið orðið ansi fullt, og langtímaminnið þarf sinn tíma. Í stað þess að þessu sé uplódað yfir í límheilann á ljóshraða, þá á sér stað þarna á milli, dularfull síun og úrvinnsla sem tekur skynjun yfir í tilfinningu, og aðeins það fest í taug. Og eftir þennan orkufreka process, þá veit ég alltaf hvað mér finnst um allt! ... en kannski ekki hvers vegna!!

Já enn ein konumyndin. Stilli mér upp óhikað og horfi stíft. Það er í lagi, ef maður fær leyfi, sem er veitt á mjög subtle hátt. Myndirnar eru að verða í stífari kantinum -ekki gott. Bæti úr því næst.

þriðjudagur, 23. janúar 2007

Hann barðist til fátæktar!


Var nokkuð konstrúktífur í dag. Byrjaði í morgun að semja um skattaskuld hjá tollstjóra. Gerði þvínæst þessa mynd á Kaffitári, sem er í það stífasta, en samt svolítið spennandi í litum, og varði svo deginum í að hugsa um að skynsamlegt væri nú að taka upp á því að breyta rétt og ná mér upp úr þessu fjárhagsbasli! Og viti menn - þá bara dúkka upp tvö ný verkefni sem redda þessum janúarmánuði. Hver var að örvænta? Ég bara spyr!

Ein fallegasta kona.....

Burt séð frá því hvort maðurinn sjálfur sé einhverskonar ílát eða túpa sem næring fer inn um eitt og út um hitt, þá hefur hann gegnum tíðina verið upptekinn við að búa til hverskyns ílát- fyrst og fremst til að flytja eða geyma mat og drykk, og hefur þessi hæfileiki eflaust skipt sköpum í þróunarferli mannskepnunnar. Leirker og önnur ílát sem finnast í jörðu gefa ýmislegt til kynna um tækni og menningarstig þeirra þjóða sem þau skópu. Stórkostleg leirker grikkja bera vott um mikið listfengi og verktækni á háu stigi.

Nútímamaðurinn hefur ekki alveg skilið við ílátið, þó svo að vatnið komi úr krana og maturinn í seilingarfjárlægð í ísskápnum. Þessi frumstæða eðlishvöt að forma ílát hefur tekið á sig nýja mynd, nefninlega í formi svokallaðra umbúða. Og í stað þess að eitt ílát var notað hér áður fyrr, þá er sérhver vara, hvort sem það er matvara eða eitthvað annað, afgreidd í sínu eigin sérstaka íláti. Þetta finnst mannfólkinu alveg fínt og sjálfsagt mál. Ílátið hefur verið fullkomnað. Það þjónar ekki eingöngu flytjanleika heldur smellpassar þetta inn í samfélag nútímans þar sem mikilvægt er að vita hver á hvað og hvað er hvað, því allt skal vera aðgreint, hefur sinn verðmiða, og undirstrikar hversu úrvalið er nú mikið. En svo fer þetta yfirleitt sama veg, niður meltingarveg og ílátin öll lenda í mikilvægasta íláti allra íláta - svarta ruslapokanum.

Þegar fornleifafræðingar framtíðarinnar grafa upp rústir vorrar siðmenningar, hvaða einkunn skildum við fá fyrir okkar blessuðu umbúðamenningu?

Datt þetta svona í hug þegar ég var að taka til í eldhúsi RA. Já það er sko nóg af sorpi. Annars stakk Varði hausnum inn til mín, og kíktum við á náttúrukaffihúsið Hljómalind áðan, og þar sat ein af fallegustu konum landsins við tölvu. Náði henni alls ekki (!) en læt þessa mynd samt vera hér með, því einhverstaðar verður að byrja. Þetta átti líka að vera teikni-blogg og ekkert annað!

mánudagur, 22. janúar 2007

Morgunmúsík

Hvaða erindi á ég inn í bloggheiminn. Ekki hið minnsta. Þessvegna ætla ég ekki að blogga, heldur teikna myndir. Hef aldrei getað haldið uppi samræðum við vitiborið fólk, og Pétur sagði við mig að ég teiknaði bara til að losna við að tala. Hann hitti naglann á höfuðið. Þetta var fyrir 20 árum, og of seint að breyta þessu núna.
En ef maður er í raun mállaus, er þá hægt að fúnkera í þessum heimi? Það er svolítið sérstakt og líklega það sem þetta blogg fjallar um. Auðvitað er allt merkingarlaust og svo ógurlega stutt. En eins og Elton John söng (ögh!):

From the day we arrive on the planet
And blinking, step into the sun
There's more to see than can ever be seen
More to do than can ever be done...


Elska að hlusta á þetta til að flýja skyldur og skatta.... þar til fjárnámskrafan byrtist. En þegar allt viriðst vera að hrynja í kringum mann, hvað betra að gera en hverfa inn í sinn fallega heim, fullan af lífi og litum í smá stund. Svo tekur maður púlsinn á ný - Best að byrja þessa viku með nýju lífi!