mánudagur, 26. maí 2008

MARS!


Í dag sveif ég um í súrrealískri stemningu eftir að hafa horft í gærkvöldi, með öðru auganu á vefútsendingu NASA frá lendingu á MARS og með hinu á kínversku bíómyndina Ying Xiong á RÚV - hvortveggja ótrúleg galdraverk.

laugardagur, 24. maí 2008

Mokka 50 ára í dag!

Egill á tónleikum á Hjómalind í gærkvöldi

Jóhann Axelsson og frú í afmælisveizlu Mokka sem var í allan dag!

Sjáið frábæra sýningu á Mokka í tilefni 50 ára afmælis þess. Til hamingju kæra kaffihús!

fimmtudagur, 22. maí 2008

Morgunlesning á kaffitári

...svo var hann farinn áður en ég gat klárað vestið almennilega!
Ungi maðurinn hægra megin er líka á mynd sem ég gerði fyrir um viku síðan ekki satt?

...svo var hún farin áður en ég gat litað eldrauðu kápuna og ljósgula hárið!
Hefði verið svo flott með bláa glampanum á bollunum...

þriðjudagur, 20. maí 2008

Fyrir innan og utan ...

Ketill á Mokka áðan

"Aðferð hans til að væðast lífinu" sagði Pétur Gunnarsson um nákvæmar dagbókarfærslur Þórbergs. Finnst þetta falleg skýring. Við, þessi lesblindu (og eflaust Asberger á einhverju stigi) þurfum einhvernveginn að ná lendingu í þessu lífi. Ég teikna. Þess á milli er alltaf verið að byrja upp á nýtt. Byrja nýtt líf sem enginn verður var við. Mokka er fínn staður fyrir slík kaflaskipti.

Á að vera Héðinn í gær


Á sunnudaginn dró ég Juan og Ásthildi og einnig Gabríel minn upp í sveit. Þetta var lymskulegt bragð því að í vændum var hörkuvinna. Mamma blessunin var búin að búa til lynsubaunasúpu í hádeginu, og fengum við okkur smá orku áður en keyrt var hálfa leið til Þingvalla til að ná í dýrindis kindaskít. Margar hendur unnu létt verk, og var skíturinn einstaklega fínn eftir veturinn. Það eru ekki allir sem elska það að vinna svona í moldinni og skítnum, en Ásthildur og Juan eru sannkölluð náttúrubörn. Samt fannst mér ekki rétt að verða við bón Ásthildar að senda yfir hana sparðadrífu!
Eftir tvær ferðir og tvö skítahlöss var kærkomið að fá heimabruggið frá 1993 úr gróðurhúsinu með graflaxi á Ritz kexi. Vínið kom á óvart - var einstaklega ljúffengt,létt og svalandi. Já hann kunni þetta blessaður kallinn hann faðir minn. Hann átti einnig afmæli þennan dag - hefði orðið 79 ára. Svo var sagaður eldiviður og fírað upp í útigrillinu og með lærissneiðunum var splæst einni flösku af Ponzi - Pinot Noir Reserve 2005 frá Richie frænda sem hann kom með síðasta sumar. Þetta segir Luisa frænka um vínið:
"White pepper, black plums, dark chocolate and exotic spices highlight the constantly evolving nose. The mouth is full and lush with red raspberry, blueberry and cassis. A sweet fruited mid-palate precedes present, but soft, tannins and a lingering finis"
Sjá nánar hér
Ég segi nú bara frábært vín og enn betra í sveitinni í náttúrunni og öllum skítnum!
Svo var borin fram afmælissúkkulaðikaka uppi í stofunni og hlustað á "Þú eina hjartans yndið mitt" sungið af mömmu.
Í dag hitti ég Ásthildi í RA. Hún var með harðsperrur frá því um helgina. Hitti svo Juan áðan á Santa Maria - hann sagðist ennþá vera með rödd móður minnar í huganum; "Like Sirena..."

föstudagur, 16. maí 2008

Tókst.

Villi Þorsteins spjallar um portrett á Mokka

fimmtudagur, 15. maí 2008

Rós...

.. á Mokka

miðvikudagur, 14. maí 2008

Grafir, gróður, gestir og gangandi.

Hafði með mér stærri skissubókina niður á tárið í morgun og gleymdi ekki að kippa með mér stóru stikki af engiferrót og 5 salamisneiðum frá ítalíu (HA HA!). Var í formi og gerði þessa mynd með svartri krít. Vitlaus fjarvídd, en allt í lagi samt...

Emiliano vinnur á Kaffitári í morgun


Í hádeginu fór ég á miðvikudagsseminar RA sem að þessu sinni var í formi stórfróðlegrar leiðsagnar Sólveigar og Heimis um gamla kirkjugarðinn og kallaðist "Gróður og grafir í Hólavallagarði". Þessi ævintýralegu hjón gerðu þessa hádegisstund ógleymanlega, og ekki spillti veðurblíðan fyrir. Þarf að kíkja þangað fljótt aftur og skoða betur hlyninn og girðingarnar.

Ég fór aftur upp á vinnustofu bara til að snúa við niður í bæ og hanga með Agli Ólafs, Katli Larsen, Klöru, Juan, Ilon, Bárði, Sveini og mörgum fleirum sem áttu leið hjá fyrir utan Mokka! Mér er ekki viðbjargandi, en samt nota ég tímann smá og drekk piparmyntu + earlgrey te saman með rifnu engifer útí. Verra gæti það verið.A failed attempt on Ilan outside Mokka!

Gunnar (sem draugur) á Mokka um daginn


Hér eru svo nokkrar skyndimyndir síðan síðast:M&M

Mokka

miðvikudagur, 7. maí 2008

Heimferðarblús

Eftir á að hyggja er ég nokkuð ánægður með vatnslitamyndina. Það er margt fínt í henni s.s. trén sem bera við himinn hægra megin. Það sem ég lagði smá hugsun í og næmni skilaði sér. Fannst hún of mikil fantasía fyrst en kann vel við það nú.
"Pensa a te!" endurtók Ivano hennar Möggu aftur og aftur. Hann er alltaf mjög pósitífur gagnavart myndunum mínum.

Í gær var langur dagur í flugvélum og hangs á flugvöllum. Hvað er betra þá en að teikna blóm.Svo er hér ein mynd a la Hringur Jóhannesson.

Heimferðarblús

Við erum komin heim - þetta var allt of stutt. Litlu afkastað miðað við væntingar, en ánægður með það sem ég gerði. Verkefnalistinn sem bíður mín er sprunginn. Breytist nokkuð? Kannski eitthvað - ég er amk orðinn eldri.

sunnudagur, 4. maí 2008

Veizla

Myndin heppnaðist ekki sem skyldi:

Chiesa di Gragnano, Loiano

Er orðinn of vanur olíukrítinni og kann ekki að blanda vatnslitina lengur. Svo voru penslarnir sem ég tók með handónýtir. Ojæja - ágætis æfing í mismunandi gerðum af trjám!

Við höfum verið einstaklega heppin með veður. Sól og blíða á hverjum degi og yfir 20 stig. Í gær hélt Magga upp á afmælið sitt. Þessa litlu mynd (olíukrít) fékk hún frá mér af veröndinni fyrir framan litla húsið hennar:


Flókið mótíf en ef vel er að gáð má finna hliðið með g-lyklinum, blómsturpotta á víð og dreif, rósir í bastpotti, sófa og glugga með hlerum, fiat panda, endann á langborði, og fuglabúr með páfagaukunum tveim.

Hér var boðið til veizlu í gærkvöldi þar sem bornar voru fram allskyns hollustur- aspassúpa ásamt bökum af ýmsum gerðum t.d. ein með broccoli og villtri brenninetlu, tómatar með olífuolíu, basil, mozzarella og lauk. Síðan komu sætindin; jarðarber með rjóma, frönsk súkkulaðikaka, Ciambella (með ógrynni af eggjum) sem ég elska, og íslenskar pönnukökur með sultu og rjóma. Hvítvín og rauðvín auðvitað, og svo endaði þetta allt með að fólkið tróð sér allt inn í litlu stofuna og Magga og píanistinn hennar Marco Belluzzi tóku lagið. "Draumalandið" eftir Sigfús Einarsson og Zueignung eftir Strauss og allir stóðu á öndinni. "Bravo Margarita"! og Paolo sýndi gæsahúðina á handleggnum. Svo hófst allmennur söngur- ítalskir slagarar í bland við aríur og dúetta. Marco endaði svo með því að spila Scott Joplin "Maple leaf rag", sem ég spilaði sjálfur undir drep á menntaskólaárunum. Allir hæstánægðir með kvöldið, jafnvel hundarnir og kettirnir undu sér vel við tónlistina.

föstudagur, 2. maí 2008

Hræðsla við hitt og þetta...

Ég er hræddur við stóru vatnslitablokkirnar og dútla bara við litlar skissur. En það stendur til bóta. Við Duca keyrðum í dag um dalina hér í kring og fundum litla falleg kirkju sem ég byrjaði á. Held áfram með hana á morgun.

Hér er fyrst mynd sem gleymdist síðast, en hún er í lestinni frá London til Stanstead:Hér er svo mynd frá Bologna sem sýnir vel rauðbrúna litinn sem einkennir borgina. Myndin er af Via Moline fyrir utan bestu ísbúð í heimi:Gerði þessa um daginn af húsinu á móti Möggu:
Eitt af því sem herjar á blessaða hundana hérna í ítölsku sveitinni er snýkjudýrið "Zecche" eða sekka eins og við köllum hana hér. Nú er ég ekki alveg nógu vel að mér í lífsferli þessarra hvimleiðu dýra, en þeim tekst með einhverjum undraverðum hætti að teika sér far með hundunum, og grafa sig svo niður í feldinn og bíta sig þar fasta í húðina og drekka blóð eins og þær eiga lífið að leysa. Við það bólgna þær upp margfalt og geta náð því að vera á stærð við vænt bláber.

Að fjarlægja sekku er þónokkur kúnst, því þó hún sé að mestu á yfirborði húðarinnar, eru fætur og höfuð á kafi ofaní húðinni og snúa þarf upp á dýrið til að ná henni allri úr sárinu. Sagt er að ef skilin er eftir t.d. ein löpp þá verði úr henni ný sekka. Einnig getur komið slæm ígerð í sárið sem getur leitt til heilahimnubólgu! Ekki dugar að hella á sekku alkahól eða spritti, en gamalt ítalskt húsráð segir að hella skuli góðri ólífuolíu á sekkuna og þá dregur hún inn ranann og forðar sér.Í dag dundaði ég mér við að teikna þessar tvær- önnur var að koma sér fyrir á Duca, og hina sneri Magga systir úr Ice. Hún er reyndar í minni kantinum, en gefur ágæta hugmynd um hvert stefnir. Takið eftir að þegar móðirin er byrjuð að fitna þá er yfirleitt komin önnur lítil sem hún geymir við brjóst sér. Stórfurðulegt!

Ef þetta er ekki nógu ógeðslegt alltsaman, þá ætla ég rétt að minnast á það sem henti mig síðast þegar ég heimsótti Möggu systur á Ítalíu, eða öllu heldur þegar ég var kominn aftur heim. Fann ég þá fyrir einhverju meini á bakinu rétt fyrir neðan hægra herðablað. Þegar ég þreifaði betur á því þá var eins og einhver harður nabbi stæði í húðinni, líklega flís. Ég man ennþá hryllinginn sem greip mig þegar ég skoðaði bakið í spegli. Í einu æðiskasti reyndi ég að ná góðu taki á dýrinu og snúa því út efir kúnstarinnar list. En hálft dýrið varð eftir í sárinu. Til allrar hamingu átti ég ennþá eitt nýtt Guillett rakvélablað af gömlu gerðinni, og með þeirri mestu einbeitingu og sjálfsögun sem ég hef nokkurn tímann þurft að grípa til skar ég út keylulaga stikki nógu stórt og vel það. Vona svo að ég þurfi ekki að gera aðra eins skurðaðgerð á sjálfum mér í framtiðinni.