sunnudagur, 4. maí 2008

Veizla

Myndin heppnaðist ekki sem skyldi:

Chiesa di Gragnano, Loiano

Er orðinn of vanur olíukrítinni og kann ekki að blanda vatnslitina lengur. Svo voru penslarnir sem ég tók með handónýtir. Ojæja - ágætis æfing í mismunandi gerðum af trjám!

Við höfum verið einstaklega heppin með veður. Sól og blíða á hverjum degi og yfir 20 stig. Í gær hélt Magga upp á afmælið sitt. Þessa litlu mynd (olíukrít) fékk hún frá mér af veröndinni fyrir framan litla húsið hennar:


Flókið mótíf en ef vel er að gáð má finna hliðið með g-lyklinum, blómsturpotta á víð og dreif, rósir í bastpotti, sófa og glugga með hlerum, fiat panda, endann á langborði, og fuglabúr með páfagaukunum tveim.

Hér var boðið til veizlu í gærkvöldi þar sem bornar voru fram allskyns hollustur- aspassúpa ásamt bökum af ýmsum gerðum t.d. ein með broccoli og villtri brenninetlu, tómatar með olífuolíu, basil, mozzarella og lauk. Síðan komu sætindin; jarðarber með rjóma, frönsk súkkulaðikaka, Ciambella (með ógrynni af eggjum) sem ég elska, og íslenskar pönnukökur með sultu og rjóma. Hvítvín og rauðvín auðvitað, og svo endaði þetta allt með að fólkið tróð sér allt inn í litlu stofuna og Magga og píanistinn hennar Marco Belluzzi tóku lagið. "Draumalandið" eftir Sigfús Einarsson og Zueignung eftir Strauss og allir stóðu á öndinni. "Bravo Margarita"! og Paolo sýndi gæsahúðina á handleggnum. Svo hófst allmennur söngur- ítalskir slagarar í bland við aríur og dúetta. Marco endaði svo með því að spila Scott Joplin "Maple leaf rag", sem ég spilaði sjálfur undir drep á menntaskólaárunum. Allir hæstánægðir með kvöldið, jafnvel hundarnir og kettirnir undu sér vel við tónlistina.

Engin ummæli: