fimmtudagur, 24. júlí 2008
mánudagur, 21. júlí 2008
Tæknipása
Jú ég er ennþá að teikna, en ég verð að játa það að dugnaðurinn á því sviði hefur ekki verið mikill. Hef ekki haft nógu mikla passíon í teikningunni því ég ákvað að sinna aðkallandi þróun á nýju tölvukorti fyrir næstu kynslóð af tölvueiningum frá TAP technology sem ræður við GPRS samskipti... já og í siðustu viku gekk allt upp og vandamálin leystust. Er búinn að draga það allt of lengi að hella mér út í það að lóða saman tölvukubba og búa til réttar spennur og öll þessi smáatriði sem þarf að halda utanum, sem er í raun mjög skemmtilegt og mikið púsluspil þegar maður er kominn í gang en oft erfitt að byrja og einhvernveginn var ég ekki tilbúinn fyrr en í síðustu viku. Það eru komnir sjö mánuðir!! Já það er eitthvað skrítið við það hvernig maður frestar hlutum.... verð einhvernveginn að hafa það á tilfinningu hvernig útkoman verður.....einhver tilfinning fyrir framtíðinni....að stemningin þar sé góð.
Nú er tími til kominn að bæta fyrir þessa þögn og setja inn það misjafna dótarí sem framkallaðist í skissubókinni minni þrátt fyrir allt. Konuna með biksvarta hárið (neðstu þrjár) er ég ekki að ná. Veit ekki hvað veldur. Þarf að horfa betur eða kannski vantar samþykki.
Þýsk kona skrifar dagbók fyrir utan Mokka | Pirraður ferðamaður á kaffitári |
Fyrir utan Mokka |
Á Mokka | Á Mokka |
Gunni og Kari lesa lesbókina á Mokka |
Með mömmu sinni á Mokka | Fyrir utan Mokka |
Fyrir utan Mokka |
Á Mokka í dag |
mánudagur, 7. júlí 2008
Arnarfjörður er ótrúlegur!
Við Gabríel kíktum í Arnarfjörðinn á leiðinni suður frá Hómavík þarsíðustu helgi (ekki beint í leiðinni!) Þegar við keyrðum í gegnum Bíldudal og undir skugga fjallsins var eins og að fara í gegnum göng. Þar hljóp yfir veginn minkur með ungann sinn sem varð svo skelkaður þegar hann sá okkur koma að hann fraus á miðjum veginum þrátt fyrir öskrin í móðurinni sem var komin yfir í grjótið sjávarmegin. Ég fór út úr bílnum og var kominn um meter frá honum þegar móðirin stökk til hans og beit hann örsnöggt í hnakkann og var svo horfin í grjótið - allt í einu hendingskasti. Sé ennþá fyrir mér hvernig hún sveiflaði unganum þegar hún sneri sér við. Eina ummerkið um þessa frábæru björgun var svo pissupollurinn á miðjum veginum.
Þetta var fyrsta vísbendingin um að við voru að koma í heim hinnar villtu náttúru! Svo tóku við breiðurnar af gulhvíta sandinum með miklu fuglalífi og Turquoise-litaður sjórinn alveg ótrúlegur.
Hér að neðan eru myndir af svæðinu fyrir framan Hvestu þar sem kom til tals að planta stóriðju. Í stað þess að springa úr reiði, fylgdi ég fordæmi sonar míns sem sagði bara með sinni aðdáunarverðu yfirvegun "Þvílíkt rugl!". Svo héldum við góða skapinu og nutum allrar dýrðarinnar í botn.
þriðjudagur, 1. júlí 2008
Litli munaðarlausi ísbjörninn
Stundum fær maður nóg, og reynir að beina reiði sinni í ... tja... í skapandi farveg! Það veitir ekki á gott ;O)
Þessi hugmynd varð til í dag og gæti verið innlegg í einleikjahátíðina á Ísafirði - ActAlone sem hefst nú í vikunni:
Útbúa litla ísbjarnarbrúðu sem er stjórnað af báðum höndum til að opna og loka munninum og fingurnir verða að tönnum. Sjálfur er maður í svörtum fötum með disk úr stífu glæru plasti um mittið sem nær 1-2 metra út. Á disknum eru nokkrir ísjakar úr frauðplasti. Ísbjörninn, fingurnir og jakarnir eru málaðir með blacklight litum og lýsast því upp í myrkrinu og svo er tungl á stöng sem gefur blacklight birtuna. Jakarnir og tunglið speglast í plastinu.
Nú - leikþátturinn hefst í kolsvörtu myrkri og svo smátt og smátt lýsist tunglið. Ljúft forspil fallega ítalska lagsins Mattinata (Leocavallo) hefst og svo byrjar litli ísbjörninn að syngja:
Ég veit eina eyþjóð í norðri
sem kann ekki að fara með líf
hún rústar og mengar og drepur
því hún þekkir ei alvöru strííííííð
osfrv...
Óþarfi er að birta meira af söngtextanum, en í stuttu máli fjallar hann á nokkuð bjarsýnan hátt um alla þá möguleika sem Ísland hefur til að setja fordæmi í umgengni við sitt umhverfi - í borginni sem í náttúrunni á sjó og landi. Einnig er minnst á hvað við eru nú vel í stakk búin til að gera allskyns tilraunir með sjálfbæra lifnaðarhætti og þróun nýrra orkugjafa sem gætu nýst umheiminum, en í dag eru það bara sýndaraðgerðir. Þetta gerir litla ísbjörninn dapran, en svo sér hann nokkrar dúkkur svamlandi í sjónum. Það eru mannverur sem hafa hrakist frá eyjunni sinni. Hann hjálpar þeim upp á jakann en sér að þarna eru komnir nokkrir vestfirskir sveitastjórnarmenn, hinir og þessir forstjórar og lögfræðingar og einnig Friðrik Sófusson og Össur Skarphéðinsson (öðru nafni Álgerður). Hann sér að enn er von svo hann étur þá og verður saddur og sæll.
Sýningin er hugsuð sem hryllingsatriði - Þegar ísbjörninn litli opnar munninn í fyrstu tónunum svo skín í gular tennurnar verður manni ekki um sel. Hryllingurinn nær svo hámarki í lokin en er í sömu andrá mynd hins ljúfa endis (happy end!), því í þetta skipti var náttúrunni ekki fórnað og vonin fæðist á ný.
Þetta er vissulega illa farið með fallegt lag. La Mattinata er eitt af mínum uppáhalds lögum, og Jussi Bjorling syngur það allra best. Pavarotti var líka vanur að syngja það, en einnig hann hefur tekið þátt í skrumskælingu þess....fyrir svona góðan málstað?