föstudagur, 30. nóvember 2007

Ólík verk.


Tókst loksins að teikna smá í morgun, ekki góð mynd, enda erfitt að gleyma sér í þessu þessa síðustu daga....

Dagurinn í dag, þessi síðasti dagur nóvember var eins og allsherjar uppskerudagur hjá mér. Fékk í hendurnar tímaritið Börn og menning sem skartar forsíðu og baksíðumynd eftir mig - Já, ég er smá stoltur.

Þetta er frábært blað, og hefur komið út í 22 ár án þess að maður vissi nokkuð af því. Ég komst í virkilega gott skap og sveif um (svipað og þegar maður kemur aftur heim eftir vikudvöl í París) eftir að ég hafði kíkt í borgarbókasafnið og flett í gegnum eldri eintök af þessu frábæra tímariti. Það er gefið út af IBBY á Íslandi, en IBBY er alþjóðlegur félagskapur áhugafólks sem vill efla barnamenningu.

Annað sem er klárt og í höfn er verkefnið sem ég hef unnið með Finni Arnari myndlistarmanni síðustu tvo mánuði. Finnur vann til verðlauna fyrir myndlistarverk sem staðsett er innan í keilu sem gengur niður úr þakinu á nýju háskólabyggingunni sem kallast Háskólatorg. Verkið sem hefur yfirskriftina "Vits er þörf þeim er víða ratar" er alveg gullfallegt og næstumþví guðdómlegt! Það borgar sig ekki að lýsa því, því góð myndlistarverk þarf að upplifa.

Verkið þurfti nokkuð flókna mekanik til þess að það gæti snúist eftir vindátt, og höfum við Finnur pælt í þessu á Mokka í sumar og haust. Svo vann verkið samkeppnina og þá var hafist handa og tæplega tveir mánuðir að opnun. Hönnuð var tannhjólagjörð (tæp 4m í þvermál) úr áli (skorin út með vatnsbunu!) sem rennur á hjólafestingum og drifin áfram af servo mótor. Þessu var svo komið fyrir innan í klæðingu keilunnar, og einungis sést í 3 cm rauf fyrir örfína stálvírinn sem heldur verkinu uppi. Á þakinu er svo vindstefnumælir, og öllu er þessu stjórnað af lítilli heimasmíðaðri iðntölvu (þeas frá TAP technology ehf) sem staðsett er í tæknirými hússins. Þetta tókst allt alveg frábærlega og á morgun verður verkið "ræst" (menningarpabbinn ýtir á takka..) í svaka veizlu á nýju Háskólatorgi, þar sem hálf þjóðin ætlar að mæta. Þetta var stórskemmtilegt og lærdómsríkt ferðalag. Já, ég er líka svakalega montinn af þessu!

Endilega farið og sjáið þetta frábæra verk hans Finns Arnar.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábært og til hamingju

Nafnlaus sagði...

Rosalega eru Lindgren-myndirnar flottar hjá þér! Hittir akkúrat á stemminguna, bæði í þeirri bláu og þeirri appelsínugulu.