laugardagur, 30. júní 2007

Skák, skvísur, sól og kaffihús!


"Skak, skvisur, sol og kaffihus?"
Ekki hægt að hafna svona boði og sendi ég því "Já!" sms umsvifalaust. Held mér hafi farið mikið fram í skákinni, bara við það að stunda hana einungis þegar löngunin er fyrir hendi! Gæðin aukast við niðurskurð og nægjusemi. Við Grímur höfum teflt þrisvar í sumar og er heildarstaðan 9 - 8 honum í vil, eftir að ég vann 4.5 - 1.5 í gær.
Grímur bar fyrir sig allskonar afsakanir en sú lélegasta var að ég hafi teiknað svo ljóta mynd af sér síðast. Næsta afsökun voru náttúrulega allar skvísurnar sem drógu úr einbeitingunni. Virkar öfugt á mig - tefli bara enn betur með fallegum konum allt í kring. Svo til að bæta fyrir gerði ég þessa mynd af Grími sem hann var bara ánægður með. Taflmennirnir eru ágætir...

Fékk sms rétt í þessu -"Thorirdur ad mæta a thorvaldsen?"!!

fimmtudagur, 28. júní 2007

Sólin sleikt

Barði mót sól

Hef ekki samviskubit yfir að koma litlu í verk á svona degi. Ótrúlegur sólardagur! Hitti marga vini og mikið gaman, í labbitúrum og hangsi á kaffihúsum og veitingastöðum. Þess á milli var hjólað út í eitt! Hef teiknað fullt - hér eru tvær frá í dag - önnur skildi mig eftir hálf svekktan - blaðamanninn og skáldið gerði ég hinsvegar með allt of gróteskt enni!

      

mánudagur, 25. júní 2007

Ljósverk


Hef verið nokkuð eirðarlaus undanfarið - hugurinn út um allt, og líka margt sem mæðir á manni. Allskonar reddingar fyrir fólk sem ég kann ekki að vísa frá. En það er líka bara fínt. Er mikið að hugsa um sýningar sem mig langar að halda í vetur á öðru hvoru kaffihúsanna eða bara báðum. Sú sýning sem ég geri pottþétt er sýning á Kaffitári og hefur fengið nafnið 'Virkar eldstöðvar'. Þar verða gestir kaffihússins að spúandi eldfjöllum! Stefni á þetta í desember, þegar minnst er ljósið. Verður mjög áhrifamikið og skemmtilegt. Svo er það hugmynd sem kviknaði áðan á mokka, þar sem ég beið eftir kaffibollanum og horfði á dökku veggina. Mála stóra fleti sem fylla út í veggina (með kaffi auðvitað), sem eru senur inn í ný herbergi og álmur í sama stíl og mokka interior. Maður horfir á vegginn og sér þá mynd sem sýnir nýtt rými í Mokka -fleiri borð og stóla og aðra veggi og þar eru myndir á veggjunum. 'Sýning í sýningu' verður þetta. Hálf kjánalegt, en gæti samt verið spennandi illúsjón, sem að vísu virkar bara frá vissu sjónarhorni, en væri ansi undarlegt frá öðrum. Veit ekki... en svo finnst mér eiginlega meira spennandi að reyna að útfæra einhverskonar ljósverk á mokka. Hef mikinn áhuga á verki sem er í ramma, flötur eins og mynd, þ.s. notað er matt plexigler og ljósdíódur sem er stýrt til að láta element birtast og hverfa. Svo má láta mörg svona verk tala saman, þ.a. þegar eitt kviknar þá fer næsta í gang eftir einhvern tíma og svo næsta og þá verða til melodíur og riþmar. Finnst það mjög spennandi! Ein hugmynd með svipaðri tækni sem ég sá fyrir mér í dag á Mokka var mjög látlaust ljós-verk með myndum af reikistjörnum okkar sólkerfis - ein pláneta á hverri mynd, og væri hægt að búa til effect af lofthjúp eða snúningi í stílfærðum ævintýrablæ, eins og maður sér stundum mynd af fossi á hreyfingu á kínverskum veitingastöðum. Pláneturnar væru frekar litlar á fletinum miðjum en innbyrðis hlutfallslega í réttri stærð miðað við hvor aðra og svo væri sólin iðandi og risastór fyrir endann - "The sun is a raging monster!" , eins og einhver sagði. Já svona hugmyndir fæðast eftir að hafa hjólað upp Bankastræti og Skólavörðustíg á fullu og flautað á meðan 'An die Musik' óaðfinnanlega!

Eftir mokka voru teknar nokkrar skákir í þvílíku sólskini á Thorvaldsen við Austurvöll. Tapaði 5 skákum í röð fyrir Grími! Var með hugann við annað, sagði stopp og sleikti sárin með vaxlitum...

föstudagur, 22. júní 2007

Björk á mokka


Björk er ekki hún sjálf á þessarri mynd. Kannski var ég ekki alveg í sambandi, því á meðan ég teiknaði las hún fyrir mig upp úr Mogganum allan þann álvers-ófögnuð sem áróðursritið dembir á okkur í dag. Almannatengslafyrirtækið vinnur sína vinnu vel um þessar mundir, en því miður get ég ekki haft samúð með þessum vélmennum frá Alcan. Það er vælt á annan bóginn og svo barið sér á brjóst á hinn. Ég hef ekki þann 'þroska´ til að vera umburðarlyndur gagnvart allri þeirri fyrirhugaðri eyðileggingu sem þetta pakk stendur fyrir, en nóg um það hér. Þetta er lítið sætt teikniblogg og vill ekkert vita af slíku.

Læt einnig fylgja með mynd sem ég gerði á fyrirlestri Daníels Tammet og Ólafs Stefánssonar í gær sem var mjög skemmtilegur, en Ólafi kynntist ég nýverið - auðvitað gegnum teikningarnar. Myndin er af glæsilegri eldri konu, sem ég afskræmi eins og mér er gjart að gera, ekki af neinni illkvittni, heldur í leit að hinu óvænta og furðulega.

miðvikudagur, 20. júní 2007

Leit að manneskju


Þeir litir ljóss og skugga sem maður kýs að draga fram, þó ónákvæmt sé, er sú mynd sem maður sér af manneskjunni og þykist þekkja innra með sér. Getur maður talið sig þekkja einhverja manneskju bara við það að horfa á hana, eða eftir að hafa lesið bloggsíður hennar eða hlustað á hana í útvarpi? Maður leyfir sér að endurskapa þessa fyrirmynd mest útfrá eigin forsendum enda enginn annar sem getur lagt manni lið nema þá fyrirmyndin sjálf. En ekki er allt sem sýnist. Því í gegnum þá aðgerð sem felur í sér einlæga viðleitni til að skynja og skilja - fæst það sem leitað er að.
Ótrúlega sniðugur eiginleiki þessarar tilveru!

mánudagur, 18. júní 2007

Blóm á kaffihúsi


Held ég sé kominn aftur í teiknistuð. Amk var mjög gaman að gera þessa mynd á kaffitári í hádeginu. Fyrirmyndin var falleg kona sem jafnframt er mikill karakter sem ég leyfði mér að ýkja aðeins. Það er meðal annars háskinn í þessu öllu saman!
Yfirleitt breyti ég aldrei myndum eftirá enda eru þetta skissur, en í þetta skipti dró ég aðeins fram rauða litinn í blómunum á blússunni.

sunnudagur, 17. júní 2007

Una

Una vippar sér framfyrir afgreiðsluborðið og sest fyrir í nokkrar mínútur.

föstudagur, 15. júní 2007

Jafnvægistruflanir

Úr teikniblokk, á teikniblogg => teikni-block!
Hef ekki getað teiknað neitt af viti eftir að mitt látlausa blogg var blásið upp til skýjanna. Gerði heiðarlega tilraun í dag og tókst að komast á teiknistig sem samsvarar teiknimyndasögugerð 11 ára drengs sem hefur gaman af drekum.


Þarf bara að sýna þolinmæði og þá kemur þetta allt til baka. Samt ótrúlega merkilegt hvernig þetta virkar á mann!

mánudagur, 11. júní 2007

Broccolí og swiss-chard

Amma og Gabríel setja skít í holurnar.
Broccolí komið niður í eitt beð. Swiss-chard fær einnig sitt beð.

Við Gabríel fórum upp í sveit um helgina og milli þess að borða afmælisköku og vöfflur með maple sírópi og smjéri, gróðursettum við plöntur í matjurtagarðinn. Það er ekkert eins yndislegt og sitja á hækjum sér og blanda húsdýraáburði og mold saman og koma síðan plöntunni fyrir í þennan frjósama jarðveg. Spyr mig oft að því hvað í andskotanum ég er að hanga í þessu stressbæli RVK þegar ég gæti verið í þessarri paradís. En ss ég er kominn aftur í bæinn, að sinni.

Perla og Selma.

þriðjudagur, 5. júní 2007

Stefnt í rétta átt


Stelst niður í bæ á kaffihús þrátt fyrir króníska hálsbólgu og hita. Þess á milli keppist ég við að klára vefsíður, en ekki sér fyrir endann á því - alltaf bætist í hópinn. Langar hinsvegar að beita mér í þremur nýjum verkefnum sem öll krefjast sömu grunneiningarinnar og þarf ég nú að taka til hendinni. Hangsið á kaffihúsunum er nauðsynleg næring til að geta hellt sér út í slíka hightech þróun. Annars drukknar maður í tæknilegum skilgreiningum og missir vitið.

Palli í sveitinni
Því voru þetta kærkomin augnablik að fá að teikna þessar stúlkur, á Mokka í gær (hér að ofan) og á Kaffitári í morgun (hér að neðan).
Bíð með drauma um hús í sveit þar sem skordýraháfi er veifað á daginn, sóttir tómatar úr drifhúsi og salat fyrir kvöldverð. Sest svo við teiknimyndagerð um strákinn Palla (sem býr í sveitasælu á ofanverðri 18 öld og kann sko öll gömlu handtökin) þartil ég er búinn með 10s og sofna þá útfrá snarkinu í arninum.
"Ég kraup við lækinn og drakk úr hendi þér. Það var mín veröld, fyrst þegar ég man eftir mér..."    Ólöf Arnalds


      

föstudagur, 1. júní 2007

Stútfullir öskubakkar

Testellið á Mokka


Drekk bara te en gengur ekkert að losna við þessa flensu. Ég sem verð aldrei veikur, en nú gafst ég upp fyrir bakteríunni. Hún gefur mér þessa fínu bassarödd sem hentar vel fyrir lög eins og "Nótt" eða "Kirkjuhvoll". Kannski ég sé bara að fara loksins í mútur!

En þar sem tíðin er svo stórkostleg er ég ekkert að hlífa mér. Skrapp í gærkvöldi með Svenna á pöbbarölt til að upplifa þessa sögulegu stund reykbannsins. Í bænum var stemmning eins og á nýársnótt. Ég hélt sönsum eins og venjulega og enduðum við á Næstabar, þar sem við hittum Jeff sem er að rannsaka fornbókmenntir og var spjallað um sérkenni íslendingasagnanna, rafbækur, velt vöngum yfir því af hverju eru engar bókamessur á Íslandi, og einnig var lesið upp úr Æskunni. Að lokum grýttum við öskubökkum og sprautuðum úr vatnsbyssum!

Sveinn og Hermann á Næstabar