miðvikudagur, 30. maí 2007

Beðið eftir mómentinu.

Um daginn var ég beðinn að mæta á settið í nýju myndinni hennar Sólveigar Anspach "Skrapp út". Endaði með að vera í einni senu, nánast út úr ramma, sofandi úti í horni í hassvímu. Af einhvejum ástæðum var ég valinn í þetta litla hlutverk, og ég sem hélt að ferill minn sem kvikmyndaleikari væri að fara á flug eftir stórleik í "Síðustu orð Hreggviðs" og svo í "Bræðrabylta" sem Grímur Hákonarson var að klára og verður frumsýnd í Tjarnarbíói nú á föstudaginn 1. júni kl. 19:00.

En á meðan að beðið var eftir hinu ódauðlega mómenti í mynd Sólveigar, var ljúft 6 tíma hangs í rútu og hvað annað betra að gera en teikna myndir af castinu.

Frikki pönkari.

Vinkonurnar skemmta sér yfir handritinu.

Svo gleymdi ég litlu skissubókinni á tökustað, og áttaði mig ekki á því fyrr en ég var kominn heim á vinnustofu. En Þóra sminka bjargaði henni! Ímyndið ykkur ef þessar myndir hefðu glatast fyrir fullt og allt. ;o)

Vatnslitafjöll..

Í kvöld var ótrúlega fallegt veður, og var ég næstuþví búinn að fara út á nes að mála vatnslitatónana í SkaðsheiðarAkrafjallsEsjunni! Stundum æpir sólsetrið á mann; Málaðu mig! Ég verð að safna kjarki aðeins lengur, svo ég hjólaði niður í bæ og hitti gott fólk, og settist svo uppi á svalir á Babalú. Þar varð þessi vaxlitamynd til áðan - horft niður Skólavörðustíg.

      

miðvikudagur, 23. maí 2007

Fáir njóta gæðanna....

Í dag var súper fínn dagur. Fékk heimsókn á vinnustofuna frá Richie frænda sem er vínbóndi í Oregon. Sjá hér. Pino Noire er eitt af því sem þau eru flínk að brugga, og rauk salan upp úr öllu valdi eftir Sideways! Ég kíki með krakkana mína á morgun upp í sveit til að hitta frænda sinn og þau hjónin.

Ég hjólaði niður í bæ í kvöld, fékk mér lærisneiðar og rauðvínsglas á Hressó :) og leit svo við á náttúrukaffihúsið Hljómalind. Þar er alltaf eitthvað myndrænt að sjá, og þar sat ein af femínistastelpunum í sófanum við eldhúsið. Turquise og allskonar tónar af gulu og brúnu heilluðu.


Svo allt í einu var mætt kammerhljómsveit, alls 7 músikantar sem spiluðu frábær lítil verk meðal annars eftir Albrechtsberger og Haydn. Tvær fiðlur, cello, kontrabassi, Básúna , klarinett, flauta og svo bassarödd. Stórfínt prógram. Hér er hluti af grúppunni:


Við vorum ekki mörg sem nutum þess á þessu litla kaffihúsi. Tvær stúlkur tóku upp teikniblokk og fóru að teikna hljóðfæraleikarana líka. Ekki oft sem maður sér það gerast á Íslandi, enda voru þær danskar. Því miður er landinn svo ótrúlega einsleitur hópur sem fylgir tískustraumum sem oft er ruglað saman við frumlegheit og sköpunargleði og allt dásamað í hönnunarpésum og auglýsingabæklingum.

Ólöf Arnalds er hinsvegar það frumlegasta sem ég hef upplifað nýlega. Þorði fyrst í kvöld að setja diskinn hennar "Við og við" í spilarann - hef ekki lagt í það síðan ég fór á útgáfutónleikana hennar fyrir tveimur mánuðum! Og það var þess virði. Einfaldlega dásamlegt.

þriðjudagur, 22. maí 2007

Villt kirsuber


Á Mokka tók upp penna og síðan vatnsliti og úr var smádýr og skrítið afbrigði af villtum kirsuberjum. Líklega einnig afþví að einhver sagði mér að það væri 32 stiga hiti í Róm. Borðuðum mikið af þeim í Campeggio hjá Möggu systur, og var ekkert meint af þrátt fyrir alla litlu ormana. Þeir eru líka sætir!

Á vitlausum tíma.

Héðinn fer með frumsamið ljóð í anda Hjálmars frá Bólu á Mokka.

föstudagur, 18. maí 2007

Fallegt fólk

Í morgun kíkti ég á Kaffitár gagngert til að gera mynd (sem felur í sér að maður skilur laptoppinn eftir heima). Vinur minn Emiliano var fyrsta fórnarlambið, og svo falleg kona sem ég náði að sjálfsögðu ekki að fanga. Þeir sem stunda staðinn sjá samt hver þetta er.

Í dag er annar stórbrotinn sumardagur, og bráðum verður farið út á land og vatnslitað. Eitthvað vit í því!

      

Gúrkutíð ?!

Það mætti halda að við kaffihúsavinirnir værum í samningaviðræðum um næstu ríksstjórn - amk sá DV sér fært að byrta myndir af okkur á forsíðu og önnur mynd inni í blaðinu sem náði yfir meir en helming blaðsíðu 8. Já þetta er nú meira sorpritið! Ég vil bæta um betur hérmeð og sýna ykkur myndina sem vantaði á myndina (!) en það er myndin af henni Björk, sem sást í bakið á. Hún var akkúrat í smíðum þegar ljósmyndarinn smellti af...

fimmtudagur, 10. maí 2007

Effect


Þó að ég sé ekki mikið fyrir effecta eins og svo margir myndlistarmenn sem ..., þá fannst mér þessi effect sem kom af myndinni á síðunni á undan lýsa nokkuð vel hvernig sólin skein fyrir utan Mokka í dag. Sumarið kom í dag.

p.s. Ekki missa af RISESSU í fyrramálið!!!!!!

miðvikudagur, 2. maí 2007

Hættulegar teikningar.....!

Undanfarið hef ég verið mjög meðvitaður um þá hættu sem felst í því að teikna myndir af fólki í kringum mig. Hef samt verið mjög heppinn alveg síðan í Tel Aviv fyrir 30 árum, þegar stóri palestínuarabinn sem sat á móti mér á flugstöðinni áttaði sig allt í einu á því að ég var að krota hann í litla skissubóki! Um daginn lenti ég svo aftur í lífshættu á öldurhúsi hér í bæ þegar ég flæktist í, að ég taldi, saklaust teiknieinvígi við einn ungan furðufugl, en fyrr en varði var þetta komið út í andlegt stríð. Sérstaklega ógeðfelld uppákoma.

Nóg um það. Sumar myndir er ekki hægt að sýna nema þeim allra hörðustu. Hér eru nokkrar slíkar. Að vísu sáum við Óli Gunn myndirnar sem við gerðum af hvor öðrum, enda styrkir slík misþyrming bara vináttuna. Barði var líka sáttur við sýna mynd. Allt gullfallegir ungir menn! En vegna alls þessa þorði ég ekki að leyfa fjölskyldunni á mokka að sjá myndina sem ég gerði í gær. Tók bara ekki sjens á einum bömmer til!