laugardagur, 18. ágúst 2007

Menningarnótt.

Frábær dagur og tókst vel þrátt fyrir alveg svakalega erfiða fæðingu. Vann til kl. 4:30 í nótt á vinnustofunni við að setja saman hljóðstýringu fyrir Álfasetrið á Stokkseyri. Allt gekk á afturfótunum - ég held ég hafi fengið einum of stóran skammt af blýgufum af lóðningum - mig svimaði bókstaflega. Ekkert sniðugt það. En svo tókst mér að koma öllu heim og saman eftir smá svefn nú í morgun á meðan marathonhlaupararnir nutu sín í góða veðrinu. Það var frábært að skreppa með Gabba og Teddu í Álfa og Draugasetrið og gefa Álfkonunni söngrödd með nýjum hætti. Svo létum við hræða úr okkur líftóruna - Tedda bókstaflega skreið af hræðslu á einum kafla sýningarinnar þar sem hendurnar koma úr öllum áttum, og ekki þorði Gabbi að lyfta lokinu í hryllilega klefanum. Samt sögðu þau að ég hafi verið lang hræddastur!!??

Skruppum svo upp í sveit til gömlu hjónanna, tékkuðum á berjunum (bláberin alveg að verða til) og grilluðum pólskar pylsur sem allir voru sammála um að séu bara stórfínar - nema Tedda. Svo vildi unga kynslóðin skreppa á menningarnótt. Eins og Chance Elisee að sitja á Mokka þegar mannhafið jóks og jóks. Gerði þessa skyndiskissu af Hannesi fyrir utan Mokka.

Hannes - Einbeittur en ekki áhyggjufullur!
Kannski svolítið of geggjuð.

Missti af öllum viðburðum dagsins og hvað með það.
Endaði á Ölstofunni með Sveini, og svo út til að horfa á sjálflýsandi marglittur himinsins. Vona að mig dreymi margar fallega litríkar sjávarlífverur, og kannski eina perlu líka.

Engin ummæli: