þriðjudagur, 30. janúar 2007

Mokka og ofurþéttir


Kaffi Mokka var eitt sinni daglegt brauð, en nú kíki ég inn ekki oftar en einu sinni í viku. Mokka var forboðinn staður þar sem reykurinn umlukti alla gestina, og sögurnar urðu ennþá meira spennandi fyrir vikið. En svo varð Mokka reyklaust kaffihús, og breyttist þarmeð í kaffihús fyrir fínar frúr á sunnudögum, og vöfflusalan rauk upp úr öllu valdi. Nú er að myndast einhverskonar jafnvægi - fastagestirnir sem ruku burt í fússi hafa brotið odd af oflæti sínu og láta nú sjá sig á ný, og andinn er að verða eins og áður. Ja, næstum því. Bitið vantar í staðinn!

En ef meiningin er að hitta fólk að kvöldlagi, og spjalla saman, þá er Mokka ennþá rétti staðurinn. Þessar frábæru innréttingarnar geyma nær 50 ára sögu staðarins, og þögnin og viftan skapa stemmninguna.

Í kvöld hitti ég nokkra solid Mokkamenn, Hörð, Dodda og Gunna rafvirkja. Óli kínafari leit einnig inn, og spáðum við í tækniundrin sem hugsanlega geta bjargað þessum heimi. Ég sagði honum frá ofurbatteríinu sem verið er að hanna - við megum ekki láta glepjast af einhverri vetnislausn, sem er eingöngu lausn fyrir olíufélögin. Vetnið er nefninlega hentugt til fylla á farartæki ef þú ert að leita dauðaleit að eihverju í stað olíu. En það er verið að endurbæta rafhlöðuna, eða öllu heldur þéttinn. Hverjum hefði dottið í hug að endurbæta hann! Jú, hann heitir Dr. Joel Schindall, og er linkurinn á þessar rannsóknir hans hér. (Best að skoða þessa síðu í IE)
Það tekur nokkrar sekúndur að hlaða þétti. Og hann endist yfir 300.000 hleðslur. Hvernig væri að komast frá Reykjavík til Akureyrar á einni hleðslu á rafhlöðu á stærð við venjulegan bílgeymi?

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta neimdropp hefði verið fullkomið móment fyrir link.

Just saying.

Sjálfur ber ég blendnar tilfinningar til reykleysisins. Bóhemíski heimspekistöffarafílingurinn er dauður.

En sem vanreykingamaður, þá er ágætt að geta setið á Mokka tímunum saman að lesa, án þess að hósta upp tjöru og anga krónískt af tóbaki.

Nafnlaus sagði...

Jú einmitt, mómentið var og er... eða er það svindl?