fimmtudagur, 25. janúar 2007

Stíft mál


Ég hef ekki við að vinna úr því sem ég upplifi. Var þess óþyrmilega var, þegar ég settist upp í bíl hjá Bárði, sem er alltaf með nýja (og yfirleitt) spennandi músík HÁTT stillta. En í stað þess að pirrast uppfyrir haus, gat ég leitt það hjá mér og hugsaði sem svo; enn eitt material sem hellist yfir mann - best að vera ekkert að berjast, látum það bara koma. Við vorum að fara að sjá kvikmyndina Babel (Alejandro González Iñárritu), sem var mögnuð. Í fyrradag sá ég Grizzly Man (Werner Herzog) sem er stórmerkileg heimildarmynd. Ég fór í leikhús í síðustu viku og sá Bakkynjur eftir Evripídes, sem var ekki góð sýning (Eini plúsinn var Guðrún Gísladóttir í sínu hlutverki sem móðirin, og leikmyndin. Mikið efni í frábærum texta sem hefði mátt leikgera svo spennandi, en í staðinn var látið nægja að þylja upp textann, og það svo illa að maður nennti varla að leggja við hlustir).

Nú vil ég frið og ró. Skammtímaminnið orðið ansi fullt, og langtímaminnið þarf sinn tíma. Í stað þess að þessu sé uplódað yfir í límheilann á ljóshraða, þá á sér stað þarna á milli, dularfull síun og úrvinnsla sem tekur skynjun yfir í tilfinningu, og aðeins það fest í taug. Og eftir þennan orkufreka process, þá veit ég alltaf hvað mér finnst um allt! ... en kannski ekki hvers vegna!!

Já enn ein konumyndin. Stilli mér upp óhikað og horfi stíft. Það er í lagi, ef maður fær leyfi, sem er veitt á mjög subtle hátt. Myndirnar eru að verða í stífari kantinum -ekki gott. Bæti úr því næst.

Engin ummæli: