sunnudagur, 28. janúar 2007

Jói Pálma


Á Kaffitári þann 12. mars 2004,
þar sem við vorum að teikna hvor annan
Jóhann Pálmason garðyrkjumaður og góður vinur kvaddi þennan heim. Ég vil þakka fyrir þau ánægjulegu, en allt of stuttu kynni sem ég átti af Jóa. Frá því ég kynntist honum fyrst, fyrir um fjórum árum og þar til við tefldum síðustu skákina á Kaffitári fyrir tæplega tveimur vikum síðan, eru ógleymanlegar stundir við leik og störf, sem ég mun varðveita alla mína tíð.

Jói var einstaklega vandaður maður, ljúfur og traustur. Hann gerði miklar kröfur til sjálfs sín og aldrei heyrði ég hann hallmæla annarri manneskju. Hann leitaðist við að skilja aðra og var alltaf tilbúinn að veita hjálparhönd. Jói bar mikla virðingu fyrir lífinu og kom það vel fram í þeirri vandvirkni og alúð sem hann sýndi gróðri jarðar, og einnig í umgengni hans við annað fólk. Virðing fyrir öllu sem lífsanda dregur - fyrir sjálfum sér sem og öðrum manneskjum. Þessi lífsafstaða Jóa var mér oft mikil og góð lexía.

Þau tvö sumur sem ég fékk tækifæri til að spreyta mig í garðvinnunni með Jóa voru fyrir mér eins og að upplifa ævintýri. Með hverjum nýjum garði var nýtt verk að vinna, og Jói stjórnaði mannskapnum með sinni einstöku ró og yfirvegun. Verkvit Jóa var mikið, enda var hann fagmaður í sinni grein en einnig bjó hann yfir mikilli útsjónarsemi og skipulagshæfileikum. Dugnaður hans smitaði útfrá sér, allir lögðu sig fram og flókin verk voru unnin létt og tíminn flaug því lífsgleðin var allsráðandi.

Að því kom að við spreyttum okkur saman í skák, og var þá ekki aftur snúið. Vinnudagur byrjaði yfirleitt á því,að teknar voru nokkrar 5 min skákir á litla kaffihúsinu Kaffitári þar sem Ragga lagaði morgunkaffi. Þetta var hressandi leið til að vakna, og voru oft miklar sviftingar á skákborðinu og klukkubarningur, sem þó yfirgnæfði aldrei fuglabjargið; kaffikallana sem ræddu þjóðmálin sín á milli, og þar lág mönnum oft hátt rómur. Á þessum tímum hefur Kaffitár eflaust verið háværasta kaffihús í Reykjavík fyrr og síðar. Þetta reyndist frábær upprifjun á skákiðkuninni, og í framhaldi var stofnaður skákklúbbur með fleiri vinum sem tefldi á miðvikudagskvöldum í eldhúsi RA. Jóa vantaði aldrei á þær æfingar. Skákirnar við Jóa voru alltaf stórskemmtilegar. Við reyndumst vera álíka sterkir, báðir mátulega agressífir en tókum aldrei óþarfa áhættu að okkur fannst! Þó að við værum ekki að vinna saman við garðvinnu, og skákklúbburinn í varanlegu sumarfríi, héldum við Jói áfram að tefla stutt skákeinvígi á Kaffitári, og nú síðast í desember og einnig eftir áramót. Skákirnar þetta tímabil voru yfirleitt þannig að Jói tefldi 1. e4 - Rf6 2. e5 - Rd5 3. c4- Rb6 4. d4 osfrv á svart, en ég tefldi yfirleitt sikileyjarvörn með svart sem hann svaraði 2. b4, og spunnust alltaf mjög spennandi skákir úr því.

Nú þegar ég hugsa til baka, þá bregður ekki skugga á eina einustu minningu um samneyti við Jóa. Allt voru þetta ótrúlega gefandi stundir. Jói kunni að kalla fram það besta í hverri manneskju, með sinni hlýju persónu þar sem stutt var í húmor og glettni. Það er því með miklum söknuði sem ég kveð Jóa Pálma, þennan einstaka heiðursmann.

Jói! Takk fyrir skákirnar. Takk fyrir samveruna. Takk fyrir alla hjálpina. Takk fyrir allt sem þú kenndir mér. Takk kæri vinur.

Engin ummæli: