fimmtudagur, 20. september 2012
sunnudagur, 16. september 2012
Parísardútl...
Við Björk og Gabríel erum stödd í París, og án þess að ætlast til of mikils af sjálfum mér hef ég samt dútlað aðeins í vatnslitunum í Jard' Lux. Það er ennþá sama gamla góða stemmningin í þeim stórkostlega garði. Skákmennirnir jafn iðnir að mæta og jafn æstir - jógar að stunda sínar æfingar inn á milli trjánna, háværir smellir kveða við þegar boccia kúlan hæfir aðra í bland við tennishöggin. Og það vantar ekki heldur skemmtunina fyrir unga fólkið - seglbátarnir, shetland pony og hjólakassabílar og svo leikvöllur með vegasalt og öllu! Það er meira að segja smábarnareitur umlukinn þéttum lágreistum hekk sem myndar öruggt afdrep.
Það vakti mikla ánægju hjá okkur að finna býflugurnar og búin þeirra sem eru í suðvestur horni garðsins. Þarna hafa menn haft býflugur síðan 1856. Næsta laugardag verður uppskeruhátíð í garðinum og við mætum þangað spennt.
Gæti haldið áfram endalaust að dásama þennan garð, með sínum fjölbreytta gróðri og skrauti , styttum og blómsturkerjum og fagurlega steyptu gridverki. Í ár er gult þema í blómabeðunum, en í fyrra var það appelsínugult og dökkrautt. Reyni að gera mynd af gulu dýrðinni einhvern næstu daga.
Jæja, hér koma svo myndirnar so far....
Kínverskur Gabriel á Mirama nýbúinn með Canard laque. |
Hjörturinn í Jardin de Luxembourg |
Björk að skrifa póstkort á Le Select |
Haustbirta í Jardin de Luxembourg |
miðvikudagur, 8. ágúst 2012
Dýralíf í Reykjavik um verzlunarmannahelgi...
Eftir góða máltíð á Þremur Frökkum var trítlað niður á tjörn áður en við fórum á finnska mynd í Bíó paradís. Það var falleg birta og mikið um að vera við tjarnarbakkann. Byrjaði að stúdera einn máf með kúlupenna, og svo annan, og brátt breiddist myndefnið yfir báðar síður bókarinnar. Vann mjög hratt því við vorum að verða of sein í bíó. Úr varð þessi litla naiviska skissa sem mér þykir bara vænt um, sérstaklega hægri hluta hennar.
Annarskonar dýralíf varð að stúdíu á kaffihúsi við laugarveg. Byrjaði að teikna konu sem var í óða önn að tala við vinkonu sína á Skype á IPADdinum sínum, hátt og snjallt. Spennandi voru fellingarnar á blússunni og byrjaðí ég í léttum stíl, og siðan snerist athyglin að öðrum þarna í umhverfinu - einn að lesa bók (nú jæja!) annar með músik að skrifa og svo hjón að lesa tímaritin. Og smátt og smátt breiddist myndin út frá hægri til vinstri yfir stikkorð og punkta sem ég hafði krotað þar - eitthvað ómerkilegt og andlaust. Stíllinn fór úr því að vera léttur og næmur yfir í stífan og mekanískan vinstra megin, en það var ekki alslæmt.
Þegar allt kemur til alls lærir maður eitthvað á þessu.
sunnudagur, 29. júlí 2012
Að treysta lífinu...
Það er oft sem ég velti fyrir mér afstöðu til hluta og þá á ég ekki við eðlisfræði. Hvernig á maður að hugsa t.d. til sjálf sín og eigin líkama þannig að ég vinni með honum, geri honum ekki mein heldur hjálpi honum. Hugurinn er nefninlega oft svo ótengdur lífinu, en samt virðist hann stundum vera allt sem er. Hvernig afstöðu hef ég þegar ég er að teikna. Það getur verið vandamál þegar hugurinn er alltaf að fylgjast meðvitaður með. Þessi meðvitaði hugur kallar fram óöryggi, efasemdir og gagnrýni sem annars væri bara ekki til. Blessaður hugurinn - ef hann gæti nú bara leyft lífinu að njóta sín og dansað með.
Í þessum myndum mínum má oft berlega sjá afstöðu mína. Ég er oft óöruggur og þá varfærinn en stundum varfærinn en samt að njóta þess. Svo koma einstaka sprettir sem ég læt bara vaða og þá næ ég oft best því sem ég skynja. Leyfa sér bara að gera og treysta. Fáðu þér frí haus og njóttu þín bara - lífið vill bara njóta sín og þannig blómstrar allt.
Hér eru svo tvær myndir úr daglega lífinu :)
mánudagur, 2. júlí 2012
Alvarleg portrett á Hamingjudögum
Hér koma myndirnar sem ég gerði á Hamingjudögum á Hólmavik 2012 nú um helgina.
Ætlaði að gera vatnslitaportrettmyndir í þetta sinn og Björk reið á vaðið og þá þóttist ég vera tilbúinn í tuskið.
En þegar allt kom til alls vildu allir fá gamla góða krítarteikningu eins og síðustu ár. Kannski Björk hafi verið einum of ógnvænleg um augun á vatnslitamyndinni ;)
Hækkaði verðið upp í heilar 1500 kr - þannig gat ég verið að stanslaust án þess að fólk væri að velta fyrir sér hvort það hefði efni á þessum óþarfa.
Ég er bara sáttur við myndirnar - allar eru þær þrusu líkar fyrirmyndinni, (nema þá Gústi, þ.s. ég ýkti ekki rétt einkenni). Sérstaklega var gaman að teikna síðustu tvær myndirnar - mikil fegurð þar á ferð.
.
Takk fyrir mig kæru Hólmvíkingar og gestir!
fimmtudagur, 7. júní 2012
Á batavegi
Þó að fingurgómarnir séu ekki eins næmir og áður, og sjónin ekki heldur neitt skárri, þá tekst mér samt einstaka sinnum að ná einhverju sem hefur ekkert með tækni að gera. Þess vegna ætla ég ekkert að kvarta yfir henni í þetta sinn! Mikilvægara er að mér tekst að gleyma mér og það er mitt jóga, mín hugleiðsla og minn mælikvarði á það hvort ég sé að batna.
Hér eru nokkrar nýlegar skissur sem hjálpa mér til þess.
sunnudagur, 27. maí 2012
Illa ígrundaðar skissur
Nokkrar skissur sem ég er ekki ánægður með. Það er ekkert nýtt í þessu. Læt þær samt flakka...
sunnudagur, 20. maí 2012
Fallegur dagur nú sem fyrr
Var einhvernveginn high á lífinu í dag. Hef líklega komið ýmsum fyrir sjónir sem óðamála vitleysingur, en leið svo vel og hafði frá svo mörgu að segja - svo mörgu sem ég vildi fagna. Líklega er þetta bara sumarið sem er komið í mig. Eða kannski af því að nú er ég stútfullur af blóði. En svo getur það verið bara út af því að ég byrjaði daginn á að gera þessa mynd á kaffihúsinu.
Ég reyndi um daginn að vera ögn fínlegri í meðhöndluninni og þá var þessi til
Ég fann tvær skissur í bók frá sama tíma fyrir ári síðan sem ég gleymdi að pósta hér. Læt þær koma með, því í dag var slíkur sumardagur
miðvikudagur, 9. maí 2012
Góður vinnudagur
Eftir góðan vinnudag, verðlaunuðum við Gabbi og Frank okkur með vöfflum með rjóma og sultutaui og kakói með iðnaðarsalti æ nei ég meina rjóma á Mokka. Hér er Frank frændi í sólinni saddur og sæll.
Bjarni Bernharður var ánægður með lífið á Mokka. Fékk að teikna hann eftir langt hlé. Þessi er í "bitter realism" stílnum sem var svo vinsæll á Garði í gamla daga. N.B. This is not art!
Við Jói og Paul hittumst eftir langt hlé og fengum okkur pizzur á Horninu - Pescatore auðvitað með ferskri steinselju :) . Svo var haldið í útsýnisferð m.a. að Hörpu, en það þyrmdi yfir Jóa þar inni, svo við drifum okkur á Ölstofuna til að jafna okkur og teiknuðum hvor annan. Takk fyrir góða kvöldstund.
Svo eru hér nokkrar skissur frá Kaffitári fyrr í vor.
sunnudagur, 22. apríl 2012
Nokkrar skissur...
Hér eru nokkrar sem hafa safnast fyrir í skissubókinni. Æði misjafnt eins og alltaf.