laugardagur, 31. desember 2011
laugardagur, 24. desember 2011
Jólin komin
Hér er nýjasti meðlimur fjölskyldunnar kominn með jólaslaufu og hvílir lúin bein. Mikið hefur gengið á í lífi Mola síðan nokkrir tugir minka sluppu úr búinu hérna í dalnum. Gott er að gleyma því og kúra í sófanum við ljúfan kórsöng...
Gleðileg Jól kæru vinir!
laugardagur, 22. október 2011
Að treysta...
Þrátt fyrir að blekbyttan sé í vasanum og einnig nýjar olíukrítar, þá held ég áfram að vinna mestmegnis í línu - kannski vegna þess að ég treysti ekki mótífinu. Finnst ég ekki getað leyft mér að byrja öðruvísi en að krota útlínur... Legg ekki í að skoða heildina fyrst, einfalda og vinna svo smátt og smátt í átt að smáatriðum... sem verða miklu áhrifameiri ef þau koma eðlilega í stað þess að strax krota þetta svona. Jæja - svona er þetta núna. Verð vonandi sterkari á svellinu fljótlega og hlakka til að treysta aftur á lífið.
(Viðbót 7.1.2012) Hér er svo ein mynd sem gleymdist frá þessu tímabili (reyndar gerð daginn fyrir fyrsta uppskurð!)
fimmtudagur, 22. september 2011
Að sjá vatnsliti aftur
Ég hef aðeins getað komist í gang með vatnslitina á þessum 10 dögum sem við dvöldum í París. Það er alltaf jafn erfitt að byrja, og maður er alltaf jafn hissa hvernig litirnir hegða sér. Þeir dofna alltaf. Lærði aðeins aftur á þetta - náði að gera þessar þrjár myndir í Jardin du Luxembourg og er sæmilega ánægður. Vonandi tekst mér að halda áfram og fást þá við haustbirtuna hérna heima.
Borðdúkar
Í París eru frábær veitingahús, og oft eru borðdúkarnir úr pappír sem þjóninn krotar niður pöntunina á. Ég fór að krota myndir af Björk á nokkrum af þeim stöðum sem við heimsóttum í síðustu viku..
Sumar teikningar
Hér eru nokkrar skissur frá því í sumar. Hef minnkað komur mínar á kaffihús, og dvel lengur í sveitinni þar sem maður hefur komið sér fyrir á æskustöðvunum. Helsta erindið í bæinn hefur verið að keyra út salatið tvisvar í viku á betri staði bæjarins! Svo er ágætt að fá sér tebolla á Kaffitári og og sjá hvort eitthvað kemur úr pennanum. Með sumar af þessum myndum hefði kannski verið betra að segja að blekið væri búið.
sunnudagur, 3. júlí 2011
Portrett myndir fyrir slikk!
Skrapp til Hólmavíkur til að teikna portrett á Hamingjudögum 2011. Það var stanslaust teiknað frá 10-12 og 13-18 þrjá daga í röð. Gerði yfir 20 myndir - hér að neðan eru nokkrar þeirra.
Fyrstur reið á vaðið Eyjólfur skákmaður og jazzgeggjari. Þetta var mikið puð og pína, en samt rosa gaman!
Í dagskrá hamingjudaga stóð eftirfarandi:
Tómas Ponzi teiknar portrettmyndir á 20 mín. inni á Kaffi Galdri. Einstakt tækifæri til að fá fallega mynd af sér á aðeins 1.200 kr.
Takk Siggi Alta fyrir móttökurnar og aðstöðuna, Ásdís fyrir gistingu og Silja fyrir fínar ljósmyndir!
Næst er bara að skella sér í portrettmyndasmíð á laugaveginum RVK.