Sinfó og dauðaþema
Það eru ár og dagar síðan ég fór á sinfóníutónleika, en í kvöld var á dagskránni meðal annars "Eyja hinna dauðu" eftir Rakmaninoff sem var inpírerað af samnemdu málverki Arnold Böcklins. Pabbi hafði svo tengt myndina við Ísland, því ekkja Berna lét mála verkið eftir lát hans, en hann hafði einmitt verið á Íslands tveimur árum áður en hann lést. Því var smá ljósmyndasýning í anderi háskólabíós til að segja þessa sögu. En verkið var magnað, og á meðan rissaði ég upp þessa mynd af sinfó með japönskum pensilpenna.
Eftir hlé var flutt Sinfónía nr. 14 op. 135 eftir Sjostakovítsj sem ætlaði alveg að ganga að manni dauðum enda um dauðann út í gegn. Sjostakovitsj er alltaf spennandi, en stundum of langur. Hafði nægan tíma til að dunda mér við næstu mynd.
Þessar tvær myndir eru svolítið frábrugðnar því sem ég er vanur að gera, en góð æfing. Er ánægður með einföldunina í þeirri fyrri - hugsaði til Gylfa Gíslasonar og hvernig hann notaði blek og pensil, t.d. myndirnar sem eru á skiltunum á Þingvöllum, það síðasta sem hann lét eftir sig og með því besta.