Ein fallegasta kona.....
Burt séð frá því hvort maðurinn sjálfur sé einhverskonar ílát eða túpa sem næring fer inn um eitt og út um hitt, þá hefur hann gegnum tíðina verið upptekinn við að búa til hverskyns ílát- fyrst og fremst til að flytja eða geyma mat og drykk, og hefur þessi hæfileiki eflaust skipt sköpum í þróunarferli mannskepnunnar. Leirker og önnur ílát sem finnast í jörðu gefa ýmislegt til kynna um tækni og menningarstig þeirra þjóða sem þau skópu. Stórkostleg leirker grikkja bera vott um mikið listfengi og verktækni á háu stigi.
Nútímamaðurinn hefur ekki alveg skilið við ílátið, þó svo að vatnið komi úr krana og maturinn í seilingarfjárlægð í ísskápnum. Þessi frumstæða eðlishvöt að forma ílát hefur tekið á sig nýja mynd, nefninlega í formi svokallaðra umbúða. Og í stað þess að eitt ílát var notað hér áður fyrr, þá er sérhver vara, hvort sem það er matvara eða eitthvað annað, afgreidd í sínu eigin sérstaka íláti. Þetta finnst mannfólkinu alveg fínt og sjálfsagt mál. Ílátið hefur verið fullkomnað. Það þjónar ekki eingöngu flytjanleika heldur smellpassar þetta inn í samfélag nútímans þar sem mikilvægt er að vita hver á hvað og hvað er hvað, því allt skal vera aðgreint, hefur sinn verðmiða, og undirstrikar hversu úrvalið er nú mikið. En svo fer þetta yfirleitt sama veg, niður meltingarveg og ílátin öll lenda í mikilvægasta íláti allra íláta - svarta ruslapokanum.
Þegar fornleifafræðingar framtíðarinnar grafa upp rústir vorrar siðmenningar, hvaða einkunn skildum við fá fyrir okkar blessuðu umbúðamenningu?
Datt þetta svona í hug þegar ég var að taka til í eldhúsi RA. Já það er sko nóg af sorpi. Annars stakk Varði hausnum inn til mín, og kíktum við á náttúrukaffihúsið Hljómalind áðan, og þar sat ein af fallegustu konum landsins við tölvu. Náði henni alls ekki (!) en læt þessa mynd samt vera hér með, því einhverstaðar verður að byrja. Þetta átti líka að vera teikni-blogg og ekkert annað!
1 ummæli:
háæruverðugi Tómas! Ég vild benda yður á að skissa yðar, af tónlistamanninum svavar knúti, hefur hlotnast þann sess, að vera notað sem íkon, sem presenterar hans persónu, á veraldarvefnum.
http://www.myspace.com/mrknutur
Skrifa ummæli