Elsku Nabokov
Síðustu dagar hafa verið kvíðablandir, eitthvað sem ég hélt að gæti ekki gerst lengur, en kvíði er eitt af því sem verður ekki umflúið stundum - eins og sársauki í kjölfar meiðsla. En með kvíðann er stundum erfitt að finna meinið. Í gær náði ég hinsvegar smá sambandi við sjálfan mig aftur, og við haustið. Það var fallegt veður, og eftir Mokka (þar sem ég teiknaði lélega mynd af Bárði bara svona í dútli), löbbuðum við Sváfnir á yfirlitssýningu Braga Ásgeirssonar á Kjarvalsstöðum. Við vorum sammála um að gömlu kúbísku verkin væru mest spennandi og epoxy-relief myndirnar ekki alveg fyrir okkur. Svo aftur á Mokka og þá gerði ég þessa mynd í anda Braga útfrá myndinni af Bárði.
Bárður á Mokka fyrir og eftir áhrif frá Braga.
Breytti henni svo í fölsun með því að setja undirskriftina. Hún fer hinsvegar ekki úr skissubókinni, og mun aldrei verða tekin sem original því hún er drasl - bara fíflalæti hjá okkur plebbunum.
Á leiðinni heim kom ég við á Borgarbókasafninu og fann þar í 100kr hillunni bók sem hét "Elsku Margot", sem við fyrstu sýn virtist vera einhver eldheit ástarsaga af kápunni að dæma, en eftir Nabokov.
Þegar heim á vinnustofu var komið vissi ég að ég yrði að taka til hendinni. Hef verið að vinna eitt verkið af öðru, án þess að sópa og taka til á milli, og nú var ástandið orðið svo slæmt að ef ég lagði frá mér einhvern lítinn hlut var víst að ég fyndi hann ekki aftur nema með ærinni fyrirhöfn. Það var því vonlaust að byrja á nokkru nýju. og í gær tókst mér að byrja á tiltekt og var að til miðnættis. Þvílíkur munur. Ekki alveg búið, en nú má þó sjá að það er dúkur á gólfinu, og hægt að labba um svæðið án þess að eiga það á hættu að rekast í tölvudrasl eða fá lappir af rökrásum stingast upp í ylina á sér.
Ég er ekki frá því að kvíðatilfinningin hafi bara horfið með draslinu sem ég sópaði burtu. Einhvernveginn var lagður nýr bjartsýnn grunnur með þessari einföldu aðgerð. Klukkan 01:30 þar sem ég lá á beddanum ánægður með árangurinn, seildist ég í bókina sem ég hafði keypt fyrir 100 kallinn og hóf að lesa með eftirvæntingu.
Og það er svo merkilegt - að sögupersónan í bókinni, sem sagt er að muni yfirgefa eiginkonu sína vegna hjákonu og að allt endi með ósköpum, fær þessa dásamlegu hugmynd í byrjun bókarinnar að taka þekkt málverk og breyta í litteiknimynd - animation sem væri ferðalag inn í myndina, og drægi þannig fram hugarheim listamannsins. Ég veit ekki, en ég hef aldrei áður lesið neitt sem hefur komið mér svona mikið á óvart! Og um leið var það ekkert skrítið að þessi bók rataði til mín.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli