Reiðilestur
Mokka 24 feb.08
Held að það hafi aldrei verið jafn illa komið fyrir okkur og nú. Ekki af því að bankarnir eru gjaldþrota, heldur er allt önnur og alvarlegri krísa í gangi.
Íslenska þjóðin veit ekki lengur hvað hún stendur fyrir. Henni má lýkja við fyrrtan einstakling sem hefur gengið of langt í misnotkun og neyslu - sjálfsmyndin gjörsamlega í molum undir hörkulegu yfirborði. Einstaka veikar og óöruggar raddir samviskunnar berast úr djúpi þjóðarsálar, en þær eru umsvifalaust kæfðar, og spillingin, neyslan og yfirgangurinn heldur áfram.
Það þarf að treysta innviði samfélagsins. Hvaða innviði? Trillukarlinn sem má ekki veiða? Einstaklinginn með góðu hugmyndirnar en hefur ekki tíma til að staldra við og koma þeim á koppinn? Eða er verið að tala um manninn sem rekur vinnuvélafyrirtækið? Já hann þarf virkjun og stóriðju!
Það þarf að hlúa að velferðarsamfélaginu. Nú? -Er ekki nægt vöruúrval? Matur og lyf. GSM samband og háhraðanet. Er það eitthvað fleira sem þú vilt?
Andlit þessa þjóðfélags eru ráðamenn sem ganga fyrir græðgi og eru í hlutverki skaffarans sem gefur næsta skammt. Einn slíkur ráðamaður var í Kastljósi um daginn og sýndi okkur glansmyndir af olíuhreinsunarstöð í myrkri. Hann andvarpaði mikið þegar ungur maður frá Framtíðarlandinu taldi upp fullt af spennandi kostum til að byggja upp mannlíf og starfssemi á Vestfjörðum. Í huga þessa durgs kviknaði ekki á neinu ljósi. "Mengun?? Hver segir það?" hváði hann ábúðarfullur þegar minnst var á mengun samfara slikri verksmiðju. Það ætti að vaða inn í stofu, heima hjá svona mönnum, á stígvélum löðrandi í hráolíu. "Olíuhreinsunarstöð og Háskólasamfélag geta farið vel saman!" Hættan sem steðjar af þessum vel útlítandi ómenntuðu, fáfróðu og hæfileikalausu mönnum er mikil, því þjóðin er að bíða eftir nýjum skammti - sem bara þeir geta skaffað.
Þjóðin - það er ég og þú. Er ekki kominn tími til að hætta þessari neyslu, skipta um hugarástand og flæma þetta pakk út í hafsauga?
Hér er svo smáa letrið. Á þessari síðu er fullt ritfrelsi enda vistað hjá Google. Um það gilda EKKI íslensk fjölmiðlalög, sem stuðla að því að hefta alla réttmæta gagnrýni sem ráðamenn hafa ekki velþóknun á.
2 ummæli:
alver rett Tomas, hurray!..naglinn for a hofudid, langar heim en hangi her enn, allt er fint, kv Bjorkin
"Álver rétt" ??? Óheppileg innsláttarvilla :o))
Þú verður á Ströndum í sumar er það ekki? Hlakka til að fara í göngur og tína ber.
Skrifa ummæli