sunnudagur, 27. apríl 2008

Gamla húsið

Við Tedda erum stödd í sveitinni suður af Bologna í fjöllunum þar í um 1000m hæð. Hér er allt að springa út, sól og sumar. Mér líður eins og fornmanni frá túndrum norðlægra slóða sem varðveizt hefur í ís en er nú að þiðna og fá líf í sig á ný. Ekki er allt um seinan.

Við fórum í göngutúr eftir stígnum...



upp að gamla eyðibýlinu sem er einn af mínum uppáhalds stöðum:



Gleymdi að setja vatnslitina í poka, en gerði þessa skissu í litlu bókina:



Gerði þessa vatnslitamynd '97 þegar við fórum þangað fyrst:


"Pabbi, mig langar að búa hérna. Ég er alltaf hamingjusöm hérna á Ítalíu. Ég þoli ekki Ísland. Það eina sem krakkar gera þar er að drekka og hanga einhversstaðar sem er ekkert gaman til lengdar. Viltu ekki kaupa gamla húsið. Ég skal sjá um að þrífa fyrir þig og passa börnin!"
Það er víst verið að vinna í því að finna einhverja hávaxna ítalska konu handa mér. Ég er búinn að segja systur minni að það þýðir ekkert- en hún þarf að sannfærast sjálf.

Hér eru svo hnoðrarnir sem tóku á móti okkur um nóttina þegar við komum - afkomendur Duca og Ice.

mánudagur, 21. apríl 2008

Yfir í birtu og yl

Karakterstúdíur á Mokka

Tangókvöld á Kaffitári

Á Mokkasofíu í gær

Kaffitársfantasía

Hugurinn er strax kominn á suðrænni slóðir, og líkaminn fylgir með eftir sólarhring.
Við Tedda ætlum að leggja Möggu systur lið í litla húsinu í Campeggio. Ég geri mér vonir um að geta stolist í vatnsliti, og filmað skordýralífið sem er að vakna til lífsins um þessar mundir, á milli þess að vaska upp og elda fyrir fjögur hraust ungmenni, sjá um 3 hunda, 2 ketti og hænsn. Mikið hlakka ég til að fá aðeins hvíld frá öllu bullinu sem hefur dunið á manni á þessu skeri, og fá að upplifa fegurð allt um kring og sjá alla litadýrðina sem fylgir vorkomunni þarna í henni Ítalíu. Og allt í takti sem rímar við lækjarnið. Hafið það sem best á meðan - Ciao!

laugardagur, 12. apríl 2008

Hæð yfir landinu...

Bjarni Bernharður á Mokka í gær (olíukrít)

Drekar.



Drekinn krúttlegi

Tedda teiknar dreka í bókina mína (vaxlitir og sortulyng)

Við Tedda mæltum okkur mót á Kaffitári og tókum stórar ákvarðanir.

föstudagur, 11. apríl 2008

Að lesa á hjóli..

Stærðfræði á Kaffitári (pennastöng og sortulyng)

Er aftur búinn að uppgötva pennastöngina og nota sortulyngsblekið góða sem Hilmar í Morkinskinnu gaf mér um árið. Það er alveg einstakt blek og ekki að furða að handritin hafi verið skrifuð með því. Litarefnið er svart, en þynnist út í fallegan gráan tón. Blekið er mjög þunnt (því engin bindiefni eru í því) og þornar fljótt og litarefnið festist vel á blaðið. Samt er hægt, ef með þarf, að leysa það upp með vatni einu saman og ná því öllu upp aftur! Líklega stafar þetta af eiginleikum fínu litarkornanna í blekinu.

Svanur mokkakall (pennastöng og sortulyng)

Á Mokka (pennastöng, pensill með sortulyngi og kaffi)

Þessi maður kíkir á Mokka af og til:


Guðný Mokkagestur (sem ég teiknaði einnig árið 2001)

Guðný Sveinbjörnsdóttir

lánaði mér "Yfirvofandi" sem hann er höfundur að - svört bók sem ég las í labbitúrnum í gegnum vesturbæinn, frá Mokka í JL-húsið. Fólki fannst það skrítið. "Biblían?" - "Nei! - leikrit". Ég mæli með því að lesa á göngu - það magnar upp stemninguna. Ég var vanur að lesa við akstur hérna áður fyrr þegar mikið lá við, en mæli samt ekki með því. Kannski á hjóli...

Hér er svo mynd af fastagesti að glugga í ársreikning CCP. Aldrei næ ég honum almennilega!


Svo að lokum er hér ein mynd sem ætti alls ekki að vera með, því hún er drulluléleg þs vínið stýrði pennanum, en samt þykir mér vænt um hana.

Björk og Íris á Hressó síðustu helgi.

föstudagur, 4. apríl 2008

Rigido!

Frá Kaffitári í gærmorgun.

þriðjudagur, 1. apríl 2008

Don Juan

Minn nýji skákfélagi og andans eldhugi Juan Roman