laugardagur, 29. desember 2007

Að gera sig að fífli...

Mokka í dag

Hvar eru allir þessir litskrúðugu karakterar sem fylltu Mokka hérna í den? Eða fylltu ekki Mokka því þeir voru margir hverjir í svokölluðu 'banni'. Þetta voru menn sem létu dásamlega furðulega - jafnvel illa og gerðu hluti af sér því þeir brunnu í skinninu. Þá var fjör! Nú þora menn varla að setja sig í stellingar nema þeir fái borgað fyrir það, eða hafi nú þegar milljónir undir sér og hafi bókstaflega "efni á því" að láta á sér bera. Er fólk orðið svona skíthrætt við lífið og félagslegar afleiðingar? Ekki hjálpar til að öll umræða, hvort sem það er um kynjamisrétti eða annað, stuðlar að því að allir geri eins.

Í Englandi má ennþá finna karaktera eins og þessa tvo: Quivering nostrils and a pompous ass! (að vísu er annar þessarra fallinn frá). Ég held að maður þurfi ekki að vera breskur hommi til að geta látið svona, en það sakar ekki. Það er yfirlýsing um sérstöðu sem opnar þessar flóðgáttir.

Og þeir sem hafa fengið nóg af íslensku sjónvarpi um hátíðirnar geta dottið inn í QI og séð meira af þessum snillingi. Þetta breska eðalefni er óborganlega skemmtilegt og hafa þættirnir nú rúllað í þrjú ár (allir til á youtube). Ég á svolítið erfitt með að ímynda mér hver ætti að stýra einhverju viðlíka hér á landi.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það eru komin betri lyf gegn þessu ástandi. Ef þau virka ekki er viðkomandi sendur í meðferð.