miðvikudagur, 11. apríl 2012

Undan rúminu

Vaknaði í nótt við þrusk og var þá minkurinn kominn inn í svefnherbergi. Hann var að hrjúfra sig í bastkörfuna hans Mola og virtist ekkert verða bylt við þegar ég reis við dogg en svo læddist hann fram í stofu og ég á eftir honum og svo inn í Margrétar herbergi. Þar lokaði ég hann inni og ekkert annað að gera en fara aftur að sofa. Moli var brjálaður í allan gærdag og heyrst hafði svakalegt öskur úr einu skoti og moli stóð vaktina með úfið skott. En Moli hafði greinilega farið á veiðar í nótt og var hvergi sjáanlegur. Nú í morgun var spennt minkagildra með hráum fiskbitum í og ég laumaðist með hana inn í Margrétar herbergi, en þar var allt á rú og stúi! Þegar ég var að koma gildrunni fyrir, þá birtist allt í einu svart trýni undan rúminu, eins og slanga, og svo gat hann ekki staðist fiskbitana og kom allur undan og ég sneri gildrunni og hann labbaði rólegur inn í hana. Svona á að veiða mink hugsaði ég og lokaði á eftir honum. Þetta var greinilega einn af þeim minkum sem sluppu í fyrrahaust úr minkabúinu skammt frá, en síðan hafa veiðst yfir 30 minkar hér í næsta nágrenni.
Eftir að hafa tekið til í herberginu og hreinsað út skít og glerbrot, þá kíkti ég hvort einhver skítur væri undir rúminu, en fann þá þrjár stórar vatnslitastúdíur frá því þegar ég fór til Aix  en Provence 1991, til að hugsa málið.



Frá garði í Aix, 5. nóv. 1991



Sami garður 6. nóv. 1991



Vasastúdía í sama garði, 8. nóv 1991

Það var skrítið að sjá þessar myndir aftur. Margt sem ég get krítiserað, en svo hef ég líka gleymt ýmsu sem ég virðist hafa kunnað á þeim tíma. Málaði margar fleiri litlar myndir í Aix, sem eru einhversstaðar undir einhverju eða í geymslu í einhverjum skít.

3 ummæli:

Tinnuli sagði...

Frábærar myndir. Við vorum í strætó í morgun og Jana spurði: Hvernig veit strætóröddin hvert við erum að fara? Þá varð mér hugsað til hugbúnaðarhönnuðarins. Bestu kveðjur, Tinna.

Russell sagði...

Hello Thomas, you have a sharp eye for colour. When I look at these pictures I can imagine the peace and tranquility of just sitting there
painting, hours flying by. Hope you find the other paintings and put them up on your page.

I asked for you at Mokka when last in Reykjavík, Ketill says hello.
Hope your health is improving and that you're feeling stronger.
All the best your partner in crime Russell.

Frú Sigurbjörg sagði...

Minkurinn hefði maske getað þefað fleiri uppi.... flottar þessar og gaman að hitta þig um daginn : )