mánudagur, 11. ágúst 2008

Gersemar í gróðrinum!

Ég gleymi aldrei sveppunum sem við fundum á túninu í Mývatnssveit þegar við vorum í ferðalagi þar fyrir nær 40 árum síðan. Við sáum þá frá bílnum á hestatúni og voru þeir á stærð við stóra matardiska. Pabbi setti þá í pönnu og steikti með smá hvítlauk svo ilminn lagði um allan barnaskólann á Skútustöðum og laðaði að útlendingana sem gistu þar í svefnpokaplássi. Það var ógleymanlega gott.

Ég tók með mér húfuna áðan í hlaupatúrinn ef skildi rigna, en grunaði ekki að hversu miklu gagni hún kæmi. Á leiðinni frá Gróttu norðaustanvið var fullt af þessum fínu sveppum - Champignon á frönsku og þekkjast á því að þeir eru bleikir undir regnhlífinni. Annar sveppur sem vex mikið við vegkantinn og á umferðareyjum í Reykjavík er Coprinus comatus "Shaggy mane" sem við köllum alltaf "Shaggy dog" sem er hár og langur og verður ritjulegur og blekugur mjög fljótt. Ekki eins góður og þessi bleiki, og yfirleitt of nálægt útblæstri bílanna.

Ein húfufylli áðan dugði í dásamlegan kvöldverð með hálfri gamalli bagettu:









Það á bara að krydda sveppi með salti og pipar, engu öðru - sagði mér veitingamaður á frábæru litlu veitingahúsi í Kerteminde á Fjóni.

Fer strax í fyrramálið og sæki meira...þeas ef ég lifi af nóttina!

4 ummæli:

Frú Sigurbjörg sagði...

Bíð spennt eftir næstu bloggfærslu...bara til að vera viss um þú hafir lifað nóttina af; )

Frú Sigurbjörg sagði...

Heyrðu, nú fer ég að hafa verulegar áhyggjur...

TAP sagði...

Það dugar yfirleitt að hringja bara á Mokka og spyrja hvort ég hafi ekki sést :) ... en það hefði heldur ekki dugað því ég hef verið að vinna sem aldrei fyrr - til kl. 3-4 flestar nætur - en kláraði loksins í dag! Einhverjar teikningar eru því væntanlegar innan skamms og vonandi nógu góðar til að þú fyrirgefir mér þessa þögn frú sigurbjörg mín kær...

Frú Sigurbjörg sagði...

Hlakka til að sjá nýjar teikningar og gott að vita að sveppirnir hafi ekki gert útaf við þig Hr. tap minn kær: )