þriðjudagur, 1. júlí 2008

Litli munaðarlausi ísbjörninn

Stundum fær maður nóg, og reynir að beina reiði sinni í ... tja... í skapandi farveg! Það veitir ekki á gott ;O)

Þessi hugmynd varð til í dag og gæti verið innlegg í einleikjahátíðina á Ísafirði - ActAlone sem hefst nú í vikunni:

Útbúa litla ísbjarnarbrúðu sem er stjórnað af báðum höndum til að opna og loka munninum og fingurnir verða að tönnum. Sjálfur er maður í svörtum fötum með disk úr stífu glæru plasti um mittið sem nær 1-2 metra út. Á disknum eru nokkrir ísjakar úr frauðplasti. Ísbjörninn, fingurnir og jakarnir eru málaðir með blacklight litum og lýsast því upp í myrkrinu og svo er tungl á stöng sem gefur blacklight birtuna. Jakarnir og tunglið speglast í plastinu.


Nú - leikþátturinn hefst í kolsvörtu myrkri og svo smátt og smátt lýsist tunglið. Ljúft forspil fallega ítalska lagsins Mattinata (Leocavallo) hefst og svo byrjar litli ísbjörninn að syngja:

Ég veit eina eyþjóð í norðri
sem kann ekki að fara með líf
hún rústar og mengar og drepur
því hún þekkir ei alvöru strííííííð

osfrv...

Óþarfi er að birta meira af söngtextanum, en í stuttu máli fjallar hann á nokkuð bjarsýnan hátt um alla þá möguleika sem Ísland hefur til að setja fordæmi í umgengni við sitt umhverfi - í borginni sem í náttúrunni á sjó og landi. Einnig er minnst á hvað við eru nú vel í stakk búin til að gera allskyns tilraunir með sjálfbæra lifnaðarhætti og þróun nýrra orkugjafa sem gætu nýst umheiminum, en í dag eru það bara sýndaraðgerðir. Þetta gerir litla ísbjörninn dapran, en svo sér hann nokkrar dúkkur svamlandi í sjónum. Það eru mannverur sem hafa hrakist frá eyjunni sinni. Hann hjálpar þeim upp á jakann en sér að þarna eru komnir nokkrir vestfirskir sveitastjórnarmenn, hinir og þessir forstjórar og lögfræðingar og einnig Friðrik Sófusson og Össur Skarphéðinsson (öðru nafni Álgerður). Hann sér að enn er von svo hann étur þá og verður saddur og sæll.

Sýningin er hugsuð sem hryllingsatriði - Þegar ísbjörninn litli opnar munninn í fyrstu tónunum svo skín í gular tennurnar verður manni ekki um sel. Hryllingurinn nær svo hámarki í lokin en er í sömu andrá mynd hins ljúfa endis (happy end!), því í þetta skipti var náttúrunni ekki fórnað og vonin fæðist á ný.

Þetta er vissulega illa farið með fallegt lag. La Mattinata er eitt af mínum uppáhalds lögum, og Jussi Bjorling syngur það allra best. Pavarotti var líka vanur að syngja það, en einnig hann hefur tekið þátt í skrumskælingu þess....fyrir svona góðan málstað?

Engin ummæli: